Fjórar ályktanir

2. maí 2022

Fjórar ályktanir

Prestar og djáknar gengu í prósessíu til Hvammstangakirkju við setningu Stefnunnar í síðustu viku - mynd: Pétur G. Markan

Presta- og djáknastefnu var slitið í Melstaðarkirkju fimmtudaginn 28. apríl. Stefnan fundaði á Hótel Laugarbakka í Miðfirði.
Það er mál manna að Stefnan hafi verið einstaklega vel heppnuð og umræður góðar og málefnalegar.

Aðalumræðuefnið var handbók kirkjunnar og sjálfsmynd hins vígða þjóns.

Ný handbókarnefnd var skipuð í janúar síðastliðnum og í henni eru: sr. Kristján Valur Ingólfsson, formaður, dr. Sigríður Guðmarsdóttir, varaformaður, sr. Þorgeir Arason, sr. Aldís Rut Gísladóttir, sr. Elínborg Sturludóttir og Daníel Ágúst Gautason, djákni. Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir mun bætast í hópinn þegar hún tekur við störfum á Egilsstöðum.

Í Samþykktum um innri mál þjóðkirkjunnar segir þetta um handbókina:

„Handbók kirkjunnar er einingarband og vitnisburður um samstöðu í tjáningu trúar og siðar á grundvelli játninga evangelísk-lúterskrar kirkju. Handbók kirkjunnar veitir leiðbeiningar um guðsþjónustu og helgihald.“

Prestum og djáknum var skipt í hópa til að ræða einstaka þætti handbókarinnar. Hver hópur skilaði niðurstöðum í stuttu máli.

Presta- og djáknastefnan samþykkti fjórar ályktanir:

1. Ályktun um handbókina. Flutningsmaður hennar var sr. Kristján Valur Ingólfsson:
„Presta- og djáknastefna Íslands, haldin á Laugarbakka Miðfirði 26.-28. apríl 2022 fer þess á leit við Biskup Íslands að hún sjái til þess að opnuð verði samráðsgátt á vefnum um efni handbókarinnar fyrir starfsfólk kirkjunnar, líkt og gerð var þegar samþykktir um innri málefni kirkjunnar voru í mótun.“
2. Ályktun um frestun á kosningu vígslubiskups í Hólaumdæmi. Flutningsmenn sr. Ninna Sif Svavarsdóttir og sr. Þorgeir Arason: 
Presta- og djáknastefna 2022, haldin á Laugarbakka í Miðfirði 26.-28.apríl hvetur forsætisnefnd kirkjuþings til þess að draga til baka staðfestingu á ákvörðun kjörstjórnar um auglýsingu um tilnefningu og kjör nýs Hólabiskups sem birt var á vefsvæðinu kirkjan.is, 22. apríl sl.

Nú er að störfum nefnd á vegum kirkjuþings sem meta á þörf á vígðri þjónustu kirkjunnar á landsvísu, og eru embætti vígslubiskupa þar undir. Er einboðið að ákvörðun um auglýsingu um kjör nýs Hólabiskups verði frestað þar til sú nefnd hefur lokið störfum og ákvörðun verið tekin um framtíðarfyrirkomulag vígðrar þjónustu af nýju kirkjuþingi sem kosið verður í vor. Sparnaðarkrafa og þörf fyrir hagræðingu í rekstri hefur verið áberandi í umræðum á kirkjuþingi undangengin misseri. Sé þörf á miklum sparnaði innan Þjóðkirkjunnar beinir prestastefna því einnig til kirkjuþings að huga að sparnaði í stjórnsýslu t.d. með því að fresta kjöri vígslubiskups um óákveðinn tíma en hlífa um leið grunnþjónustu kirkjunnar í sóknum og prófastsdæmum við niðurskurði.“
3. Ályktun um starfsreglur var samþykkt og flutningsmaður hennar var sr. Gunnar Jóhannesson:
„Presta- og djáknastefna 2022, haldin á Laugarbakka 26.-28. apríl, hvetur biskup Íslands til að beita sér fyrir því að kveðið verði á um það í starfsreglum um presta, að þeir prestar sem ekki starfa fyrir Þjóðkirkjuna hafi ekki heimild til að taka að sér prestsverk og annast kirkjulegar athafnir á vegum Þjóðkirkjunnar og á vettvangi hennar nema að fenginni heimild biskups Íslands.“
4. „Ályktun þar sem mótmælt var fundi kirkjuþings á sama tíma og presta- og djáknastefna var haldin. Flutningsmaður sr. Elínborg Sturludóttir:
Presta-og djáknastefna Íslands haldin á Laugarbakka 26.- 28. apríl 2022 mótmælir þeim yfirgangi kirkjuþings að boða til aukakirkjuþings á sama tíma og stefnan stendur yfir. Varla þarf að benda forseta kirkjuþings á að öll synodan hefur ekki komið saman í þrjú ár og því tímabært að prestar hittist.

Því verður það að teljast sérlega óviðeigandi að boðað sé til kirkjuþings á sama tíma og synodus stendur yfir. Þjóðkirkjan er að ganga í gegnum miklar breytingar með tilheyrandi óvissu.

Á slíkum krossgötum er mikilvægt að gagnkvæm virðing, góð samskipti og eining séu höfð að leiðarljósi á kirkjulegum vettvangi. Þannig getur hún haldið áfram að þjóna samfélaginu af kærleika og gleði á 21. öldinni.“

hsh




 

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Presta- og djáknastefna

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls