Stofa sr. Geirs

8. maí 2022

Stofa sr. Geirs

Tilgátustofa sr. Geirs Vídalín í Aðalstræti 10 - mynd: hsh

Í gær var opnuð sýning sem teygir sig milli húsanna í Aðalstræti 16 og 10 í Reykjavík. Þetta er afar lifandi sýning; kjarni hennar er landnámssýningin sem var opnuð 2016 í húsinu nr. 16, og frá henni liggja undirgöng í hið merka hús, Aðalstræti 10. Í báðum þessum húsum er semsé sýning um þróun Reykjavíkur frá landnámstíð og þá er einkum horft til útgerðar, sjálfsþurftarbúskapar og mannlífs. Á sýningunni í Aðalstræti 10 er meðal annars allstórt líkan af húsaþyrpingunni í Kvosinni eins og hún leit út árið 1906.

Það er Borgarsögusafn Reykjavíkur sem stendur að sýningunni.

Húsið við Aðalstræti 10 er eitt elsta hús borgarinnar, reist árið 1762 fyrir Innréttingar Skúla Magnússonar, landfógeta.

Aðalstræti 10 tengist þjóðkirkjunni með þeim hætti að þar var Hið íslenska Biblíufélag stofnað 10. júlí 1815. Þá bjó í húsinu biskupinn yfir Íslandi, sr. Geir Vídalín (1761-1823) en hann var fyrstur manna til að gegna því embætti eftir að landið varð eitt biskupsdæmi 1801. Sr. Geir hafði verið vígður til Skálholtsumdæmis 1797.

Sr. Geir bjó í fyrstu á Lambastöðum á Seltjarnarnesi en varð gjaldþrota og flutti í Aðalstræti 10. Kona hans var Sigríður Halldórsdóttir (1768-1846), ekkja sr. Guðmundar Þorgrímssonar á Lambastöðum.

Á sýningunni má sjá meðal annars tilgátu að stofu sr. Geirs og þeim stað þar sem Biblíufélagið var stofnað 1815.

Sýningin er opin alla virka daga frá 10.00-17.00.

Sr. Geir var oft kallaður Geir biskup góði. Hann var örlátur við umkomulausa og ættingja. Stundum voru yfir 30 í heimili hjá honum á Lambastöðum og það þurfti að elda mikinn mat ofan í allt þetta fólk. Sr. Geir hafði gjarnan á orði glettinn á svip - enda spaugsamur maður - að: „Á tveim stöðum slokknar aldrei eldur, - hjá mér og í helvíti.“

Í Íslenzkum æviskrám eftir Pál Eggert Ólason, II. bindi, R. 1942, bls. 33 stendur þetta um sr. Geir:
„Hann var manna bezt að sér, prýðilega gefinna, manna orðheppnastur og ritfærastur, vel hagmæltur, annálað valmenni, kallaður Geir góði, frjálslyndur um trúarefni, allra manna örlátastur, enda varð hann gjaldþrota 1805-6, og var þrotabú eftir hann. Hann gerðist snemma þungfær vegna fitu, og fór því ekki í yfirreið um byskupsdæmi sitt nema 3 sumur, 1798-1800.“

Kirkjan.is.is.i hvetur alla sem hafa tök á því að leggja leið sína í hið fornfræga hús, Aðalstræti 10, og skoða umrædda sýningu.

hsh


Í útgáfu Nýja testamentisins 1827 er að finna endurskoðaðan texta samstofna guðspjallanna (Matteusar, Markúsar og Lúkasar) og um þá endurskoðun sáu þeir sr. Geir Vídalín og Sveinbjörn Egilsson

 


Aðalstræti 10 árið 1906  - svarta húsið - samkvæmt líkaninu sem minnst er á

 


Kirkjan.is hitti tvær Kvennakirkjukonur á sýningunni, frá vinstri sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir og Elísabet Þorgeirsdóttir. Maðurinn í hvíta sloppnum er Jón Páll Björnsson, fræðslu- og sýningasérfræðingur hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur


Úr Alþýðuhelgin, Reykjavík 1949, bls. 47

  • Menning

  • Samfélag

  • Viðburður

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls