Djákni doktor
Í gær fór fram doktorsvörn í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Guðmundur S. Brynjólfsson, djákni, bókmenntafræðingur og leikhúsfræðingur, varði ritgerð sína um stöðu skáldsins og þýðandans Jóns Óskars (1921-1998) á íslenskum menningarvettvangi. Ritgerðin nefnist „Ég, sem þreyttur kem frá liðnum vetri“. Um margbrotna stöðu skáldsins og þýðandans Jóns Óskars í íslensku menningarumhverfi.
Andmælendur við vörnina voru dr. Auður Aðalsteinsdóttir og dr. Haraldur Hreinsson.
Doktorsritgerð Guðmundar var unnin undir leiðsögn dr. Benedikts Hjartarsonar, prófessors við Íslensku- og menningardeild. Aðrir í doktorsnefnd voru dr. Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild HÍ, og dr. Ólafur Rastrick, dósent í þjóðfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild H.Í.
Dr. Gauti Kristmannsson, varaforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.
Í rannsókn sinni kannar Guðmundur stöðu skáldsins og þýðandans Jóns Óskars á íslenskum menningarvettvangi. Höfundarverki Jóns er fylgt eftir frá því hann fer að láta að sér kveða opinberlega á fimmta áratug síðustu aldar og nánast allt þar til hann lést 20. október 1998. Sjónum er beint að því hvernig hann birtist sem arrière-garde höfundur og helstu stíleinkenni hans og fagurfræði eru könnuð. Hugað er að því hvert hann sækir aðferð og fagurfræði og hvernig þessir þættir þróast á höfundarferlinum.
Guðmundur S. Brynjólfsson lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, MA-prófi í leiklistarfræðum frá Royal Holloway, University of London, djáknanámi frá Háskóla Íslands og tók vígslu sem djákni árið 2012 en lauk síðar MA-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Guðmundur er rithöfundur og leikskáld en fæst einnig við kennslu og ýmis sérfræðistörf.
Þess skal getið að dr. Guðmundur er fyrsti íslenski djákninn sem lýkur doktorsprófi.
Kirkjan.is óskar dr. Guðmundi S. Brynjólfssyni til hamingju með lærdómsgráðuna.
hsh
Við upphaf doktorsvarnar - frá vinstri: Guðmundur S. Brynjólfsson, dr. Gauti Kristmannsson, sem stýrði athöfninni, dr. Haraldur Hreinsson, andmælandi, dr. Auður Aðalsteinsdóttir, andmælandi, dr. Ólafur Rastrick og dr. Benedikt Hjartarson en þeir tveir síðarnefndu voru í doktorsnefndinni