Lifi lífið!
Leiðir rithöfundarins Sigurbjörns Þorkelssonar og tónskáldsins Jóhanns Helgasonar liggja saman á nýjum geisladiski sem kom úr fyrir skömmu. Hann ber nafnið Lifi lífið.
Það er öllum tónskáldum mikilvægt að finna góð ljóð sem falla að lögum þeirra og eins mikilvægt fyrir skáld að fleyta ljóðunum í tónafarveg. Það hefur tekist vel á þessum nýja geisladiski.
„Ég féll alveg fyrir lögunum,“ segir Sigurbjörn, „það er ekki sama hvernig lög eru samin við viðkvæm ljóð.“ Sigurbjörn segist vera mjög þakklátur fyrir þetta framtak og þeir báðir mjög sáttir. „Eina markmið okkar með þessum diski var að hann yrði Guði til dýrðar,“ segir Sigurbjörn.
Þetta er fyrsti diskurinn með lögum við ljóð Sigurbjörns enda þótt lög hafi verið samin áður við ljóð hans.
Öll lögin ellefu á geisladiskinum eru eftir Jóhann og öll ljóðin utan eitt eru eftir Sigurbjörn. Þetta eina ljóð á dálitið sérstaka sögu sem er þessi: Sigurbjörn bað föður sinn Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson (1912 – 2006) um að yrkja bænina fyrir syni sína þrjá árið 1996. En þá voru synirnir allt frá eins árs aldri upp í tíu ára.
Geisladiskurinn var þrykktur í 1000 eintökum, Skógarmenn keyptu 300 diska og selja svo til styrktar matskálanum í Vatnaskógi. Stuðningur kom einnig úr upptökusjóði Stefs; frá Keflavíkurkirkju, Lindakirkju og Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.
Tónlistarfólkið sem lætur til sína taka á diskinum er auk Jóhanns Páll Rósinkranz, Regína Ósk, Rakel Björt Helgadóttir, Sigríður Guðnadóttir, Snorri Snorrason, Þórir Úlfarsson, auk Fósturvísanna sem er sönghópur úr Karlakórnum Fóstbræðrum.
Inga Dóra Jóhannsdóttir, hannaði útlit diskins.
Það er Hugverkaútgáfan sem gefur diskinn út og hægt er að panta hann með því að senda Jóhanni tölvupóst á netfangið jhelga@gmail.com eða á kfum@kfum.is til styrktar byggingu nýs matskala í Vatnaskógi sem heldur upp á 100 ára afmæli æskulýðsmiðstöðvarinnar í Vatnaskógi á næsta ári.
hsh