Viðtalið: Alls konar námskeið

31. maí 2022

Viðtalið: Alls konar námskeið

Margt er gert á námskeiðum - brúðugerð, Jesús mettar mannfjöldann -mynd: Sonja Kro

Margt er í boði fyrir börn á hverju sumri og þar eru alls konar námskeið mest áberandi. Hestanámskeið, leikjanámskeið, íþróttanámskeið, útilegunámskeið og svo mætti lengi telja.

Sum námskeiðanna eru kirkjutengd eins og Ævintýranámskeið í Grafarvogskirkju, þá spennandi Orgelkrakkanámskeið á vegum Tónskóla þjóðkirkjunnar og Orgelkrakka – og þá eru ótaldar sívinsælar sumarbúðir á Eiðum, í Vatnaskógi, Vindáshlíð og Kaldárseli - Ölver og Hólavatn. Glerárkirkja býður upp á sumarnámskeið í samstarfi við KFUM og KFUK fyrir börn fædd 2013-2016 og sömuleiðis fyrir börn fædd 2015-2016. Og fleira mætti telja en hér skal staðar numið.

Nýjung hjá Akureyrarkirkju

Akureyrarkirkja býður upp á námskeið fyrir börn í 5.-7. bekk undir nafninu Góðverkadagar. Þá er boðið upp á nýtt námskeið sem er fyrir hinsegin krakka í 8. – 10. bekk undir nafninu Litríkur.

Nóg er sem sé um að vera í æskulýðsmálunum í Akureyrarprestakalli þetta sumarið og krafturinn augljóslega mikill.

Kirkjan.is ræddi við Sonju Kro, æskulýðsfulltrúa Akureyrarkirkju, og spurði hana nánar út í námskeiðin.

„Þetta er fjórða sumarið sem Góðverkadagar eða sambærilegt sumarnámskeið hefur verið haldið. Í fyrra hét námskeiðið Hjálpsemisdagar,“ segir Sonja.

En í hverju felast góðverkin?

Sonja segir að þau séu með ýmsu móti. Farið er í leikskóla og hjálpað til á útisvæðinu. Börnum ýtt í rólum, mokað með þeim og fleira í þeim dúr.

„Það er líka farið á öldrunarheimili og lesið fyrir eldri borgara, ljóð og brandara,“ segir hún, „bakaðar verða möffins og starfsmönnum í sundlaug Akureyrar færðar þær“.

„Svo það er af nógu að taka og margt búið að gera til að sýna góðverk,“ segir Sonja.
Hún segir að þau útbúi líka svokölluð gleðikort sem verði dreift til fólks niður í bæ eða rennt inn um póstlúgur bæjarbúa.

Í fyrra var farið í Rauða krossinn og hjálpað til við þrif, einnig farið í KA-heimilið og þrifið þar í kring. Farið er í ruslahreinsun kringum kirkjuna. Öndunum er gefið brauð. Farið hefur verið í lystigarðinn nokkrum sinnum og arfi hreinsaður úr beðum.

Sonja segir að námskeiðin séu vel sótt. Í hverjum hópi séu um fjórtán krakkar og stundum hafi verið biðlisti.

Nýjung

„Námskeiðið fyrir hinsegin krakkar er alger nýjung. Við vitum ekki til þess að þetta hafi verið í boði hjá kirkjum áður,“ segir Sonja.

Hvert er markmiðið við námskeiðinu fyrir hinsegin krakka?

Litríkur
„Markmiðið er sýna þeim að þau eru velkomin í kirkjuna, einnig að leyfa þeim að mynda samfélag og þjappa hópnum saman. Finna til samkenndar og styrkja þau,“ segir Sonja. „Fræðslan er ekki mikil, nema farið verður í spjallhring og reynslusögur sagðar fyrir þau sem eru tilbúin í það, enginn beðinn um að segja eða gera neitt sem viðkomandi er ekki tilbúinn í.“

Þegar börn eru annars vegar eru leikir ekki langt undan. Farið verður í allskonar leiki, bæði úti og inni.

„Sameiginlegt listaverk verður skapað,“ segir Sonja. „Þeim verða kennd ýmis bjargráð eins og kyrrðarbæn, slökun og fleira.“

Sonja segir mikilvægt að gleðjast á námskeiðunum og skapa góðar minningar sem og kynnast öðrum krökkum í sömu sporum eða svipuðum.

„Við starfsmennirnir erum ekki sérfræðingarnir með fræðsluna á fullu, heldur erum við tilbúin að læra af þeim og hlusta og aðstoða ef með þarf,“ segir hún. „Allir eru jafnir í kirkjunni og gott að ungmennin geti leitað til okkar ef þarf, hvenær sem er í framtíðinni. Í síðasta tímanum ætlum við svo að bjóða upp á regnboga köku og tónlistaratriði þar sem Eden Hróa mun syngja fyrir okkur nokkur lög. Hún er einmitt í hinseginfélagi Norðurlands. Nú vonumst við bara eftir góðri þátttöku og hlökkum mikið til að taka á móti ungmennunum.“


Umsjón með námskeiðinu fyrir hinsegin krakka hafa þau Sonja Kro, sr. Sindri Geir Óskarsson, sr. Stefanía Steinsdóttir og Felix Hrafn.

hsh



 

 

 


  • Barnastarf

  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • Nýjung

  • Samfélag

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls