Viðtalið: Alls konar námskeið
Margt er í boði fyrir börn á hverju sumri og þar eru alls konar námskeið mest áberandi. Hestanámskeið, leikjanámskeið, íþróttanámskeið, útilegunámskeið og svo mætti lengi telja.
Sum námskeiðanna eru kirkjutengd eins og Ævintýranámskeið í Grafarvogskirkju, þá spennandi Orgelkrakkanámskeið á vegum Tónskóla þjóðkirkjunnar og Orgelkrakka – og þá eru ótaldar sívinsælar sumarbúðir á Eiðum, í Vatnaskógi, Vindáshlíð og Kaldárseli - Ölver og Hólavatn. Glerárkirkja býður upp á sumarnámskeið í samstarfi við KFUM og KFUK fyrir börn fædd 2013-2016 og sömuleiðis fyrir börn fædd 2015-2016. Og fleira mætti telja en hér skal staðar numið.
Nýjung hjá Akureyrarkirkju
Akureyrarkirkja býður upp á námskeið fyrir börn í 5.-7. bekk undir nafninu Góðverkadagar. Þá er boðið upp á nýtt námskeið sem er fyrir hinsegin krakka í 8. – 10. bekk undir nafninu Litríkur.
Nóg er sem sé um að vera í æskulýðsmálunum í Akureyrarprestakalli þetta sumarið og krafturinn augljóslega mikill.
Kirkjan.is ræddi við Sonju Kro, æskulýðsfulltrúa Akureyrarkirkju, og spurði hana nánar út í námskeiðin.
„Þetta er fjórða sumarið sem Góðverkadagar eða sambærilegt sumarnámskeið hefur verið haldið. Í fyrra hét námskeiðið Hjálpsemisdagar,“ segir Sonja.
Sonja segir að þau séu með ýmsu móti. Farið er í leikskóla og hjálpað til á útisvæðinu. Börnum ýtt í rólum, mokað með þeim og fleira í þeim dúr.
„Það er líka farið á öldrunarheimili og lesið fyrir eldri borgara, ljóð og brandara,“ segir hún, „bakaðar verða möffins og starfsmönnum í sundlaug Akureyrar færðar þær“.
„Svo það er af nógu að taka og margt búið að gera til að sýna góðverk,“ segir Sonja.
Í fyrra var farið í Rauða krossinn og hjálpað til við þrif, einnig farið í KA-heimilið og þrifið þar í kring. Farið er í ruslahreinsun kringum kirkjuna. Öndunum er gefið brauð. Farið hefur verið í lystigarðinn nokkrum sinnum og arfi hreinsaður úr beðum.
Sonja segir að námskeiðin séu vel sótt. Í hverjum hópi séu um fjórtán krakkar og stundum hafi verið biðlisti.
Nýjung
„Námskeiðið fyrir hinsegin krakkar er alger nýjung. Við vitum ekki til þess að þetta hafi verið í boði hjá kirkjum áður,“ segir Sonja.
Hvert er markmiðið við námskeiðinu fyrir hinsegin krakka?
„Markmiðið er sýna þeim að þau eru velkomin í kirkjuna, einnig að leyfa þeim að mynda samfélag og þjappa hópnum saman. Finna til samkenndar og styrkja þau,“ segir Sonja. „Fræðslan er ekki mikil, nema farið verður í spjallhring og reynslusögur sagðar fyrir þau sem eru tilbúin í það, enginn beðinn um að segja eða gera neitt sem viðkomandi er ekki tilbúinn í.“
Þegar börn eru annars vegar eru leikir ekki langt undan. Farið verður í allskonar leiki, bæði úti og inni.
„Sameiginlegt listaverk verður skapað,“ segir Sonja. „Þeim verða kennd ýmis bjargráð eins og kyrrðarbæn, slökun og fleira.“
Sonja segir mikilvægt að gleðjast á námskeiðunum og skapa góðar minningar sem og kynnast öðrum krökkum í sömu sporum eða svipuðum.
Umsjón með námskeiðinu fyrir hinsegin krakka hafa þau Sonja Kro, sr. Sindri Geir Óskarsson, sr. Stefanía Steinsdóttir og Felix Hrafn.
hsh