Erlend frétt: „Enginn friður fæst án réttlætis...“
Stjórnarfundi Lútherska heimssambandsins lauk í gær í Genf en hann stóð yfir í tæpa viku. Mörg mál voru á dagskrá eins og að líkum lætur og var unnið í smáum hópum sem stórum. Í stjórn sambandsins sitja 48 einstaklingar sem þing sambandsins kýs.
Kirkjan.is sagði frá stjórnarfundinum en fulltrúi þjóðkirkjunnar í stjórn er sr. Þuríður Wiium Árnadóttir, sóknarprestur. Magnea Sverrisdóttir djákni, er ráðgjafi í fjárlaganefnd stjórnarinnar. Sr. Árni Svanur Daníelsson leiðir samskiptasvið og situr í framkvæmdastjórn heimssambandsins.
Aðild Þýsk-lúhtersku evangelísku kirkjunnar í Úkraínu var samþykkt á stjórnarfundinum og hún boðin velkomin. Lútherska kirkjan í Úkraínu er ekki fjölmenn, telur 1000 safnðarmeðlimi og henni þjóna átta prestar og einn djákni.
Nú er fjöldi aðildakirkna Lútherska heimssambandsins orðinn 149 í 99 löndum.
Stjórnin sendi frá sér eftirfarandi ályktun sem lesa má hér fyrir neðan í íslenskri þýðingu:
Stjórn Lútherska heimssambandsins lýsir yfir sárri reiði sinni og skömm vegna stríðsins í Úkraínu sem staðið hefur yfir í nær fjóra mánuði en það hófst með innrás rússneska hersins inn í landið. Afleiðingar þessa stríðs eru skelfilegar: almenningur er drepinn og heimkynnum hans tortímt; fólk flosnar upp frá heimilum sínum, mannréttindi og mannvirðing fótum troðin; alþjóðlegar reglur um mannúð og mannréttindi eru þverbrotnar. Áhrif á heimsvísu á matmælaverð og matarbirgðir eru grafalvarleg.
Stjórnin beinir sjónum sínum að stríðinu í Úkraínu vegna þeirra áhrifa sem það hefur um allan heim. En stjórnin vekur líka athygli á að friðar og réttlætis er þörf í öðrum löndum vítt og breitt um heiminn. Þar má meðal annars nefna Kamerún, Kólumbíu, Lýðveldið Kongó, Eþíópíu, Haítí, Mjanmar, Nígeríu, Suður-Súdan, Srí Lanka og Jemen. Þar geisa átök sem kosta mörg mannslíf, þvingaða búferlaflutninga og erfiðleika í mannúðaraðstoð.
Þá er stjórnin uggandi yfir stöðugri fjölgun vopna sem er ekki annað en olía á eld vaxandi átaka og öryggisleysis í mörgum löndum, sérstaklega í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.
Stjórnin vill minna á yfirlýsingu Friðar og réttlætis sem samþykkt var á þingi sambandsins í Búdapest 1984 en þar sagði: „...hin eindrægna sannfæring okkar er sú að vilji Guðs sé sá að friður ríki í sköpunarverki hans. Stríð er ekki í samræmi við vilja Guðs. Það getur enginn friður orðið til frambúðar á meðan fólk sveltur, óréttlæti viðgengst áfram sem og kúgun fólks eða það látið gjalda fyrir trú sína, lífsskoðanir, kyn, eða þjóðerni. Félags- og efnahagslegt óréttlæti ásamt hugmyndafræðilegum átökum eru rætur margra styrjalda þar sem tekist er á um frelsið. Enginn friður fæst án réttlætis, og ekkert réttlæti án friðar...“
Stríðið í Úkraínu veldur stjórninni hryggð og áhyggjum vegna ofbeldisfullra átaka á kynjagrundvelli og áhrifum þess á konur og börn, sérstaklega hvað snertir kynferðislegt og kynjabundið ofbeldi ásamt mansali.
Stjórnin sýnir öllum þeim sem þjást vegna þessa samstöðu og biður fyrir þeim. Einkum þeim fimmtán milljónum sem hafa verið flutt nauðug frá heimilum sínum. Þúsundir hafa fallið og við samhryggjumst fjölskyldum þeirra innilega.
Enn fremur er stjórnin harmi slegin út af þeirri mismunum sem kemur í ljós gagnvart flóttafólki sem ekki er af evrópskum uppruna og var á flótta undan stríðinu. Stjórnina hryllir við þeirri framkomu og leggst gegn allri mismunun sem byggir á kynþætti eða þjóðerni enda er það brot gegn mannvirðingu, mannréttindum og mannlegri sæmd. Á stríðstímum verða allir að sýna samstöðu, slá varðborg um virðingu fyrir fólki og „bjóða hinn ókunna velkominn.“
Stjórn Lútherska heimssambandsins metur mikils starf lúthersku kirkjunnar í Úkraínu og þakkar fyrir þjónustu hennar sem og vitnisburð kirkna bæði í nágrannalöndum, víða á svæðinu og í öllum heiminum sem leggja hönd á mannúðaraðstoð, vernd, sálgæslu og samfylgd með þeim milljónum sem stríðið hefur áhrif á.
Stjórnin hvetur til:
Að bundinn verði endir á stríðsátök í Úkraínu og að rússneski herinn dragi sig tafarlaust til baka úr landinu.
Að samfélag þjóðanna leggi mun meira á sig en áður við að taka á átökum og kreppum í öðrum heimshlutum. Leggist á eitt í mannúðaraðstoð og friðarumleitunum.
Að samfélag þjóðanna fjárfesti meira í málaflokkum sem leiða til þróunar og styðji við bakið á friðsömum samskiptum þar á meðal með málamiðlunum til að koma í veg fyrir átök og bæla þau niður.
Að kirkjur Lútherska heimssambandsins biðji fyrir friði og réttlæti, vinni að hvoru tveggja, í öllum samfélögum, svæðum og í heiminum.
Að kirkjur, ríkisstjórnir, stofnanir og einstaklingar, beini kröftum sínum í auknum mæli í þá átt að vernda konur og börn og vinna gegn kynbundnu ofbeldi og þá einkum þar sem átök eiga sér stað. (Ísl. þýðing: hsh).
hsh