Byggja brýr milli ungmenna

28. júní 2022

Byggja brýr milli ungmenna

Kleinubakstur í uppsiglingu - ungversku ungmennin fengu að kynnast því hvernig kleinur eru búnar til - mynd: hsh

Í Árbæjarkirkju fer fram öflugt æskulýðsstarf. Æskulýðsfélagið saKÚL er fyrir alla unglinga úr 8. - 10. bekk í Árbæ og Norðlingaholti – og sumir þeirra eru líka byrjaðir í menntaskóla. Kannski finnst einhverjum nafnið skrítið en það er gælunafn á félaginu sem annars heitir Lúkas – stafað aftur á bak.

„Já, æskulýðsfélagið okkar í Árbæjarkirkju fékk styrkt frá Landsskrifstofu Erasmus+ fyrir 21 þátttakenda í ungmennaskiptum,“ segir Ingunn Björk Jónsdóttir, djákni, en hún heldur utan um starf félagsins. „Markmið ungmennaskiptanna er að byggja brýr á milli ungmenna tveggja þjóða og efla og víkka sjónarhorn þeirra ungmenna sem að koma.“

Ungmennin komu á laugardaginn til landsins. Þau eru frá æskulýðsfélagi kirkju sinnar í bænum Orosháza í Ungverjalandi og verða hér til 2. júlí. Ungversku ungmennin tilheyra evangelísk-lútherskri kirkju í heimalandi sínu en aðeins 3% þjóðarinnar eru innan hennar vébanda. Síðan heldur hópur úr æskulýðsfélagi Árbæjarkirkju utan til Ungverjalands 13. -20. ágúst.

Þau í Árbæjarkirkju hafa reynslu af ungmennaskiptum. „Við tókum á móti kaþólskum ungmennahópi frá Tübingen í Þýskalandi og fórum til Þýskalands árið 2019,“ segir Ingunn Björk. „Fórum einnig til Ungverjaland árið 2017 en ungverski hópurinn kom ekki til Íslands þá.“

Það gefur auga leið að mikil vinna felst í því að skipuleggja mót af þessu tagi. Ingunn Björk og sr. Þór Hauksson, sóknarprestur, halda utan um alla þræði og unnu umsóknina til Landsskrifstofu Erasmus+ á Íslandi.

„Umsóknarferlið er viðamikið, tímafrekt og flókið enda að mörgu sem þarf að hyggja í ungmennaskiptum,“ segir Ingunn Björk, „starfsfólk Landsskrifstofu Erasmus+ á Íslandi var afar hjálplegt og var alltaf tilbúið að leiðbeina.“

Ungmennaráðs saKÚL sagði þetta um ungmennaskiptin:
Ástæða okkar fyrir að sækja um þennan styrk er til þess að kynnast nýrri menningu og sjá í alvöru lifnaðarhætti þeirra. Það verður líka spennandi að kynnast krökkum sem tilheyra minnihlutahópi í nýju landi. Að kynnast hvernig fjölskyldur í Ungverjalandi eru. Viðfangsefnin væru að: Hittast, kynnast, hlæja, læra, kynnast menningu og ungu fólki frá öðrum löndum.
                            Björgvin Máni og Jón Björn, ungmennaráði sakÚL.

Ingunn Björk djákni og sr. Þór eru verkefnisstjórar yfir ungmennaskiptunum ásamt Aldísi Elvu æskulýðsleiðtoga Árbæjarkirkju. 

Verkefni af þessu toga gengur ekki upp nema allir leggist á eitt.
Foreldrar ungmennanna sitja ekki auðum höndum heldur taka þátt í starfinu til dæmis með uppvaski, matseld; lána sængur og grill. Aka hópnum eftir því sem þarf, bjóða í mat heim til sín. Svo þarf auðvitað að þrífa. Foreldrar og aðstandendur barnanna sinna ungmennaskiptunum af krafti og áhuga. Krisztina organlisti, kirkjuverðir, sjálfboðaliðar, prestar og sóknarnefnd Árbæjarkirkju aðstoða líka og taka þátt í verkefninu. „Þessi aðstoð er ómetanleg við verkefni eins og þetta,“ segir Ingunn Björk.

Hvernig er íslenski hópurinn sem fer út í ágúst valinn?

„Til að gæta sanngirnis höfum haft það fyrirkomulag að þau ungmenni úr ungmennaráði saKÚL sem hafa verið duglegust að mæta í vetur hafi forgang í þátttöku,“ segir Ingunn Björk, „allir þessir 21 þátttakendur sem fara til Ungverjalands hafa mætt í saKÚL á alla æskulýðsfundi haustsins.“ Hafi þau verið veik þá urðu foreldrar að láta vita af því.

Kirkjan.is spyr í lokin af hverju Ungverjaland hafi orðið fyrir valinu.

„Við vildum fara í ungmennaskipti þar sem þátttakendur fengu að upplifa ólíka menningu frá því sem er hér heima ásamt því að víkka sjónarhorn þeirra ungmenna sem að koma og því varð Ungverjaland fyrir valinu,“ segir Ingunn Björk. En allt á sér sína sögu og víða eru tengingar. Organisti Árbæjarkirkju, Krisztina Kalló Szklenár, er frá Ungverjalandi.

„Hópur starfsmanna Árbæjarkirkju fór í námsferð til Ungverjalands í ágúst 2015. Í þeirri ferð hittum við fyrir Mesterházy Balázs, sem starfaði þá sem fræðslufulltrúi á Lúthersku Biskupsstofunni í Búdapest. Balázs kom okkur síðar í samband við samstarfsaðilann í Orosháza.

Bærinn Orosháza er landbúnaðarbær í suð-austur Ungverjalandi og tilheyrir Békés-sýslu. Margir íbúar starfa við landbúnað eða afleidda þjónustu sem tengist honum. Íbúafjöldi er í kringum 50.000. Margar glæsilegar og virðulegar aldagamlar byggingar setja svip sinn á bæinn. Í Orosháza er heilsulind/sundlaug og er vinsælt er hjá Ungverjum að dvelja þar stuttan tíma í orlofsdvöl.

„Verkefnið mun vonandi hafa þau áhrif að tengsl og persónuleg kynni munu takast á milli ungs fólks sem hefur svipaðan bakgrunn en býr við ólíkar ytri aðstæður,“ segir Ingunn Björk. „Lærdómurinn felst aðallega í þekkingu og umburðarlyndi gagnvart framandi aðstæðum í Evrópu.“

Dagskrá ungmennaskiptanna í Árbæjarkirkju - júní 2022.pdf

Landsskrifstofa Erasmus+

hsh



Haukur bakari kennir hvernig snúa á í kleinu


Fylgst með af miklum áhuga


Fyrstu kleinurnar


Ágnes Hoffmann og sr. Endre Ördög, ungversku prestshjónin sem fylgja hópnum



  • Alþjóðastarf

  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls