Skálholtshátíð og friður
Dagskrá Skálholtshátíðar er vönduð sem fyrr og menningarleg. Hún er nú haldin undir fyrirsögninni: Kliður af köllun til friðar. Horft er til þeirra átaka sem standa yfir í heiminum og þá einkum nú í Úkraínu. Beðið verður fyrir sáttum og friði í stríðshrjáðum löndum heimsins.
Skálholtsstaður býður í kirkjukaffi og eftir það, kl. 16.00, hefst hátíðardagskrá í kirkjunni.
Aðalræðumenn verða dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor emeritus, og Eva María Jónsdóttir, fjölmiðlamaður, miðaldafræðingur og verkefnastjóri hjá stofnun Árna Magnússonar. Þar syngur Skálholtskórinn undir stjórn Jóns Bjarnasonar.
Erindi sitt nefnir dr. Gunnlaugur „Sáttmáli og Saltari“, og erindi Evu Maríu nefnir hún „Orð sem skreppur undan merkingu“.
Ávörp flytja Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, stýrir dagskrá og flytur fréttir af staðnum en miklar framkvæmdir hafa staðið þar yfir að undanförnu.
Tónleikar Skálholtskórsins og Jóns Bjarnasonar verða laugardaginn 16. júlí kl. 16.00 og verður það Bach-veisla mikil. Jón verður einnig með orgeltónleika á sunnudeginum kl. 11.00.
Segja má að hátíðin hefjist snemma laugardag með útimessu við Þorlákssæti og verður safnast saman við kirkjudyr kl. 9. 00. Síðan verða kvölds og morgna sungnar tíðir undir forystu Ísleifsreglunnar og endað á sunnudag eftir hátíðardagskrá með því að syngja Te Deum.
Enginn aðgangseyrir er að Skálholtshátíð, tónleikum eða viðburðum.
Hægt er að kaupa sér máltíðir á veitingastaðnum Hvönn í Skálholtsskóla og gista í Hótel Skálholti en fáein herbergi munu vera laus.
Skálholtshátíð 2022 er nokkurs konar upptaktur að 60 ára vígsluafmæli kirkjunnar sem minnst verður á næsta ári með veglegri dagskrá.
hsh