Hlakkar til kirkjustarfsins

16. ágúst 2022

Hlakkar til kirkjustarfsins

Sándor Kerekes, nýi organistinn og kórstjórinn í Egilsstaðakirkju, Vallaneskirkju og Þingmúlakirkju – mynd: Þorgeir Arason

Íslenskt kirkjulíf nýtur starfskrafta fjölda erlendra tónlistarmanna sem koma víðs vegar að til að leika á hljóðfæri í kirkjunum – og þá auðvitað aðallega á orgel. Þetta tónlistarfólk er afar fjölhæft og margt með mikla menntun í tónlistarfræðum. Sumir segja að þetta erlenda tónlistarfólk bjargi tónlistarlífi margra safnaða. Mörg dæmi eru líka um að tónlistarfólkið hafi sest hér að til frambúðar og eflt tónlistarstarf kirkjunnar til mikilla muna.

Ástæður þess að erlenda tónlistarfólkið kemur hingað til lands eru sennilegar jafnmargar og það sjálft. Einhver vill prófa eitthvað nýtt, annar leitar á vit ævintýra og enn annar hefur heyrt um landið í norðri og fallið fyrir því. Látið slag standa og komið. Stundum hefur stjórnmálaástand í heimalöndum listafólksins knúið það til að yfirgefa fósturjörðina og finna annan stað til að búa á.

Ungverski tónlistarmaðurinn Sándor Kerekes hefur verið ráðinn organisti og kórstjóri í Egilsstaðakirkju, Vallaneskirkju og Þingmúlakirkju og tekur við starfinu af Torvald Gjerde.

Torvald, sem lýkur nú formlegri starfsævi, hefur verið organisti í kirkjunum þremur í rúm 20 ár, staðið fyrir öflugu kóra- og tónlistarlífi á Fljótsdalshéraði og fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín í þágu menningarlífs á Austurlandi. Honum voru þökkuð vel unnin störf við síðustu guðsþjónustu sína í Egilsstaðakirkju, þann 3. júlí sl. Torvald er frá Noregi.

Auglýst var eftir nýjum organista sl. vetur og bárust alls sjö umsóknir, en tveir umsækjendur drógu sig til baka. Ráðningarnefnd á vegum sóknarnefndanna þriggja ákvað að bjóða Sándor Kerekes starfið.

Kirkjan.is ræddi við hinn nýja organista sem nú þegar er fluttur til Egilsstaða með fjölskyldu sína. Eiginkona hans er Mészöly Virág Kerekesné óbóleikari. Þau eiga fjögur börn og fer það yngsta í leikskóla en hin í grunnskóla. 

„Ég lék í fyrsta skipti við messu á sunnudaginn var á Egilsstöðum,“ segir Sándor, „og það gekk bara vel.“ Sándor er frá borg í austur Ungverjaland og er fæddur árið 1975. Hann hefur lokið meistaragráðu í orgelleik og tónlistarkennslu frá háskólanum í Debrecen.

„Ég var organisti við litla kirkju og kenndi líka á píanó,“ segir hann.

Reyndur maður
Alls hefur Sándor starfað í yfir 20 ár við tónlistarkennslu, orgelleik og kórstjórn í heimalandi sínu. Hann er fjölhæfur tónlistarmaður með mikinn metnað fyrir kórastarfi og til gamans má þess geta að hann stofnaði með félaga sínum popphljómsveitina 2. NAP árið 2020!

Sándor segist hlakka til að takast á við starfið og nýjar áskoranir.

 

hsh


  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Messa

  • Starf

  • Tónlist

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls