Frá vinstri: Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur í Egilsstaðaprestakalli, sr. Pétur Kovacik, prestur kaþólskra á Austurlandi, og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á HólumÍ gær, sunnudaginn 21. ágúst, var haldin samkirkjuleg guðsþjónusta við rústir hinnar fornu klausturkirkju á Skriðuklaustri.
Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir leiddi stundina og predikaði. Sr. Pétur Kovacik prestur kaþólskra á Austurlandi las guðspjall og leiddi almenna kirkjubæn. Sr. Gylfi Jónsson las ritningarlestur og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup á Hólum bað kollektubæn og blessaði í lok athafnar.
Organisti var Jón Ólafur Sigurðsson.
Sól skein í heiði og athöfnin var öll hin hátíðlegasta þar sem niður aldanna sveif yfir vötnum og kærleiksverkin sem unnin voru á þessum helga stað urðu ljóslifandi fyrir hugskotssjónum áheyrenda þegar sr. Kristín Þórunn minntist þeirrar kærleiksþjónustu sem unnin var í Skriðuklaustri á árum áður.
Hún sagði meðal annars í predikun sinni:
Á Íslandi og hér á Skriðu fór fram starfsemi sem laut skipulagi og áherslum kirkjunnar um allan hinn kristna heim. Þær áherslur lutu ekki síst að gestrisni og umhyggju í garð þeirra sem minnst máttu sín í lífsbaráttunni – og að líkna og þjóna almenningi. Boðskapur kristinnar trúar sem holdgerðist hér í klaustrinu á Skriðu var að þjóna öllum, mannkyni til heilla með áþreifanlegum hætti í gegnum trúna. Í klaustrinu höfðust þau við og dóu sem voru þurfandi fyrir mat, klæði, húsaskjól og hjálp gegn andlegum og líkamlegum meinum.
Auk þess sagði hún:
Við gerum þess vegna vel, þegar við stöndum innan um þessar minjar um hjálparstarf og fræðimennsku, að minnast köllunar kristinnar kirkju í heiminum sem Guð elskar svo mikið að hann gaf son sinn til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Það er köllunin sem er varðveitt í miskunnarverkunum 7 eins og þau eru sett fram af Jesú, í Matteusarguðspjalli 25. kapítula: að gefa hungruðum mat, gefa þyrstum að drekka, gefa klæðlausum föt, að vitja fanga, hýsa heimilislausa, hjúkra sjúkum og grafa hin látnu.
slg