Uppskeruguðsþjónusta í Seltjarnarneskirkju
Helgina 26.-28. ágúst var bæjarhátíð á Seltjarnarnesi þar sem ýmislegt var til skemmtunar. Seltjarnarneskirkja var virkur þátttakandi í hátíðinni með hamónikkuleik organistans Friðriks Vignis Stefánssonar í Gróttu þar sem hann stóð fyrir söngstund á laugardeginum. Hann mætti þar á fjölskylduhátíð ásamt sóknarprestinum sr. Bjarna Þór Bjarnasyni. Þar sungu þeir með fólkinu lög sem allir þekkja fyrir utan Albertsbúð. Þetta var að sögn sóknarprestsins mjög skemmtilegt.
Sunnudaginn 28. ágúst var síðan árleg uppskeruguðsþjónusta í kirkjunni.
Á sunnudaginn var kirkjan í græna litnum vegna þess að hún er í græna hverfinu á bæjarhátíðinni. Fréttaritari kirkjan.is var á staðnum og var vel tekið á móti fólki við kirkjudyr og boðið upp á heitan kaffisopa. Fjölmenni var í kirkjunni og eftir guðsþjónustuna var boðið upp á kaffi og með því. Þá gafst fólki kostur á að kaupa grænmetið og rauk það út eins og heitar lummur, en þar voru á boðstólum tómatar og agúrkur, kartöflur, spergilkál og blómkál og kínakál.
Á vef Seltjarnarnesbæjar má sjá eftirfarandi dagskrá hátíðarinnar:
Dagskrá bæjarhátíðarinnar er fjölskylduvæn og fjölbreytt en meðal viðburða eru Sjósund, Fjölskylduhátíð og hönnunarsýning í Gróttu, Bæjargrill, samsöngur og gleði á Vallarbrautarróló. BROT í Gallerí Gróttu, Speglaskúlpúr, BMX BRÓS sýning og þrautabraut við Björgunarsveitarhúsið, Græn uppskerumessa í kirkjunni og Fjölskyldufjör og þrautir í golfi í nýju inniaðstöðunni á Austurströnd og Sirkussýning í Bakkagarði.
slg