Siglufjarðarkirkja 90 ára
Helgina 27.-28. ágúst var mikil hátíð á Siglufirði.
Á laugardeginum var Gústa guðsmanns minnst en þann 29. ágúst, hefði hann orðið 125 ára gamall.
Á sunnudeginum var hátíðarguðsþjónusta í Siglufjarðarkirkju vegna 90 ára vígsluafmælis hennar. Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, prédikaði og sóknarpresturinn sr. Sigurður Ægisson þjónaði fyrir altari. Sungnir voru hátíðasöngvar sr. Bjarna Þorsteinssonar fyrrum sóknarprests á Siglufirði.
Undirleikari var Rodrico J. Thomas og Sigurður Hlöðversson og Þorsteinn Sveinsson léku á trompet.
Kirkjukór Siglufjarðarkirkju söng. Hlöðver Sigurðsson og Þorsteinn Freyr Sigurðsson sungu tvísöng. Lesarar voru fyrrum sóknarprestar Siglufjarðarkirkju þeir sr. Bragi J. Ingibergsson og sr. Vigfús Þór Árnason. Meðhjálparar voru Jón Andrjes Hinriksson og Júlía Birna Birgisdóttir. Guðsþjónustan var tekin upp af þeim Júlíusi og Tryggva Þorvaldssonum og Mikael Sigurðssyni og verður henni útvarpað á Rás 1 um miðjan september.
Veglegar kaffiveitingar voru í safnaðarheimilinu að lokinni guðsþjónustu, í boði Systrafélagsins.
Að því er fornar heimildir segja yfirgaf Þormóður rammi Haraldsson Noreg vegna ófriðar og landleysis, sigldi yfir hafið með fólk sitt og búfénað, uppgötvaði svo fyrir miðju Norðurlandi óbyggðan fjörð og settist þar að. Hann reisti bú á nesi við mynni fjarðarins, Siglunesi, og átti þar heima. Landnám hans náði þó yfir Siglufjörð allan og Héðinsfjörð. Talið er líklegt að þetta hafi gerst nálægt árinu 900.
Er fram í sótti var nokkuð rætt um hvar búa ætti nýju kirkjunni stað. Sumir vildu að hún yrði reist á grunni þeirrar eldri, á Eyrinni, en vegna þess að á því svæði var nú búið að reisa íbúðarhús og barnaskóla, sem óneitanlega þrengdi að eða króaði hana inni og gerði það að verkum að nær útilokað væri að byggja þar svo mikið hús sem þyrfti að vera, töldu aðrir skynsamlegra að koma henni fyrir annars staðar. Lyktir málsins urðu þær að ákveðið var að reisa hið nýja guðshús á Jónstúni, beint upp af Aðalgötunni. Arkitekt var ráðinn Arne Finsen, danskur að ætt en þá starfandi í Reykjavík, og er upphafleg teikning að kirkjunni dagsett 29. júní 1929. Hinn 30. mars 1930 lagði sóknarnefnd blessun þar yfir og á fundi 28. september það ár var ákveðið að bjóða verkið út. Sex tilboð bárust, eitt frá Akureyri, annað úr Reykjavík og fjögur úr Siglufirði. Var ákveðið að ganga að tilboði Jóns og Einars á Akureyri og verksamningar undirritaðir í febrúarlok 1931.
Safnaðarheimili var tekið í notkun á kirkjuloftinu 1982, en Gagnfræðaskóli Siglufjarðar hafði verið þar til húsa frá 13. október 1934 og haft aðsetur í 23 ár, eða þar til efra skólahús ið var reist við Hlíðarveginn.
Alls hafa níu sóknarprestar þjónað við núverandi kirkju. Þeir eru eftirtaldir: sr. Bjarni Þorsteinsson (1888–1935), sr. Óskar J. Þorláksson (1935–1951), sr. Kristján Róbertsson
(þjónaði tvisvar, 1951–1954 og 1968–1971), sr. Ragnar Fjalar Lárusson (1955–1967), sr. Rögnvaldur Finnbogason (1971–1973), sr. Birgir Ásgeirsson (1973–1976), sr. Vigfús Þór Árnason (1976–1989), sr. Bragi J. Ingibergsson (1989–2001) og sr. Sigurður Ægisson (2001–).