Allt sem þú vilt vita um Biblíuna

19. september 2022

Allt sem þú vilt vita um Biblíuna

Allt sem þú vilt vita um Biblíuna, er titill á nýútkominni bók eftir sr.Þórhall Heimisson. Þetta er áttunda bók höfundar, en áður hafa komið út bækurnar Hjónaband og sambúð, Hin mörgu andlit kristninnar, María Magdalena, vegstjarna eða vændiskona, Saga guðanna, Hamingjuleitin, Ragnarök og Hin mörgu andlit trúarbragðanna. Þórhallur býr í Svíþjóð og starfar þar sem prestur.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við Þórhall og forvitnaðist um bókina.

Hver var kveikjan að því að þú skrifaðir þessa bók?

Mig hefur lengi langað til þess að skrifa bók um Biblíuna. Ég hef um árabil haldið námskeið um Biblíuna fyrir almenning bæði heima og erlendis og á þessum námskeiðum hef ég fundið að það skortir aðgengilega og bók um Biblíuna sem allir geta nýtt sér, hvort sem menn þekkja til Biblíunnar eða ekki. Þessu vildi ég bæta úr. Markmiðið er að opna öllum heim Biblíunnar.

Nú er Biblían margslungið rit finnst mörgum. Hvernig nálgast þú efni hennar?

Já, ég hef oft fengið að heyra það hversu flókin hún er. Orðið Biblía þýðir bókasafn og vissulega er Biblían mikið safn að vöxtum. En ég reyni að nálgast efni hennar með gleraugum sagnfræðinnar og úr verður saga sem á köflum er býsna spennandi. Það þykir alla vega ýmsum lesendum, hef ég fengið að heyra. Bókin skiptist í grófum dráttum í þrjá hluta.
Í fyrsta hluta hennar fjalla ég um sögu og umhverfi Biblíunnar og þau ríki og þá menningarstrauma og trúarbrögð sem mótuðu hana. Til dæmis Egyptaland hið forna, Rómaveldi, Mesópótamíu og Grikkland. Og auðvitað löndin kringum Ísrael hið forna. Eins spyr ég um höfunda hennar, heimildir, ritunartíma og ritunarstaði.
Í öðrum hluta hennar kafa ég á sama hátt í hvert einasta rit Gamla og Nýja testamentisins, en geymi Apókrýfu ritin þar til síðar.
Þriðji hlutinn snýr að því hvernig menn hafa túlkað Biblíuna og gera enn. Þar tek ég fyrir spurningar eins og um Gyðingahatur kirkjunnar, kúgun kvenna út frá Biblíunni, ofsóknir gegn samkynhneigðum á grundvelli Biblíunnar og um umhverfismál.

Þetta er stór og mikil bók!

Já, hún telur um 500 blaðsíður með heimildaskrá, skýringum, kortum og myndum sem ég hef sjálfur tekið á ferð mínum um Miðausturlönd og víðar.

Segir þú eitthvað frá þessum ferðum þínum í bókinni?

Já, ég hef ferðast mikið um Miðausturlönd og segi einmitt frá heimsóknum mínum til þeirra landa þar sem sögur Biblíunnar gerast, allt frá Róm og Aþenu og til Jerúsalem, Egyptalands og Persaflóaríkjanna. Þannig er næstum hægt að nota bókina sem ferðahandbók til þessara landa og borga.

Hér er þá ekki aðeins um hreina fræðibóka að ræða?

Nei, þetta er líka sagnfæðileg spennubók þar sem ég reyni að kanna heimildir, hvað er hægt að staðfesta sagnfræðilega og hvað ekki. Og svo tengi ég frásögnina við mína eigin sögu og líf. Þannig verður bókin á köflum mjög persónuleg. Ég segi til dæmis í fyrsta sinn frá mjög erfiðu einelti sem ég varð fyrir sem barn og unglingur og glími við spurningar sem tengjast einelti og ofbeldi almennt út frá sögum Biblíunnar. En þannig er Biblían. Hún talar beint inn í líf þess sem les hana og það er óhjákvæmilegt að spegla líf sitt í frásögnum hennar ef maður er fást við hana. Bókin Allt sem þú vilt vita um Biblíuna er ætluð öllum.

Tekur þú fyrir allar hliðar Biblíunnar?

Já ég reyni að gera það, bæði jákvæðar og neikvæðar. Eða myrkar blaðsíður hennar eins og ég kalla þær. Ekkert er undanskilið. Við verðum líka að geta fjallað um þessar hliðar og skoðað þær ef við viljum vera heiðarleg gagnvart frásögninni. Þar er að finna texta eins og fjöldamorðin á egypskum börnum og sögur af þjóðarmorðum i Mósebókunum svo dæmi sé tekið. Og ég bendi á hinar ýmsu mismunandi og ólíku myndir af Guði sem við getum lesið um í Biblíunni, hvaðan þær koma og hvernig þær þróuðust. Sumar fallegar og aðrar ansi óhuggulegar.

Er eitthvað sem þér fannst sérstaklega spennandi að skrifa um varðandi frásagnir Biblíunar?

Þar get ég nefnt það sem ég kalla leyndardóma Biblíunnar sem er einkar spennandi að velta fyrir sér. Hvaðan kom sáttmálaörkin til dæmis og hvað varð um hana? Hver voru tengsl Móse og Egyptalands hins forna? Voru þeir Davíð konungur og Salómon til eða ekki? Hvað varð um sjö arma kertastjakann sem Rómverjar rændu úr musterinu í Jerúsalem? Fæddist Jesús árið 4 fyrir Krist? Og er hægt að færa fram sagnfæðileg rök með og á móti því að Jesús hafi risið upp frá dauðum? Ef svo er, hver er þá niðurstaða þeirra? Og svona mætti lengi telja.

Með þessar spurningar á vörum kveðjum við sr. Þórhall Heimisson og óskum honum til hamingju með bókina.

slg




Myndir með frétt

  • Fræðsla

  • Guðfræði

  • Trúin

  • Biblían

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls