Hátíðleg athöfn
Það var afar hátíðleg athöfn í Dómkirkjunni á fallegum haustdegi sunnudaginn 18. september.
Kirkjan var þéttsetin, enda var Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir að vígja þrjár ungar konur til prestsþjónustu á landsbyggðinni.
Þær eru Hafdís Davíðsdóttir, sem vígð var til þjónustu í Laufásprestakalli og Helga Bragadóttir, sem vígð var til þjónustu í Glerárprestakalli. Þær heyra báðar undir prófastinn í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi. Þriðja konan er Heiðrún Helga Bjarnadóttir Back, sem vígð var til þjónustu í Borgarprestakalli, sem er í Vesturlandsprófastsdæmi.
Vígsluvottar voru sr. Jón Ármann Gíslason prófastur Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis, sem einnig lýsti vígslu, sr. Hildur Hörpudóttir sóknarprestur í Reykholti, sr. Bragi Ingibergsson sóknarprestur í Víðistaðakirkju, sr. Stefanía Steinsdóttir sóknarprestur á Ólafsfirði og sr. Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur Vesturlandsprófastsdæmis og fráfarandi sóknarprestur á Borg. Sr. Sveinn Valgeirsson dómkirkjuprestur þjónaði fyrir altari.
Hafdís Davíðsdóttir er fædd árið 1992 og ólst upp á Akureyri. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2011.
Árið 2013 hóf hún nám við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og útskrifaðist með mag. theol. próf þaðan veturinn 2021.
Hafdís hefur unnið í kirkjustarfi nánast alla sína tíð, hún var með sunnudagaskóla, barna- og æskulýðsstarf í Langholtskirkju, barna- og æskulýðsstarf í Laugarneskirkju og sunnudagaskóla í Innri Njarðvíkurkirkju. Eiginmaður hennar er Heiðar Örn Hönnuson.
Helga Bragadóttir er fædd árið 1991 á Akranesi og ólst upp á Siglufirði og síðar í Hafnarfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2011 og hóf nám við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands haustið 2014.
Helga útskrifaðist með mag. theol. próf frá Háskóla Íslands veturinn 2021. Hún lauk framhaldsmenntun í sálgæslu hjá Endurmenntun Háskóla Íslands vorið 2022.
Helga hefur starfað í unglingastarfi og sunnudagaskóla í Grafarvogskirkju og í barnastarfi og sunnudagaskóla í Víðistaðakirkju.
Sambýliskona Helgu er María Ósk Jónsdóttir. Þær eiga fimm ára gamlan dreng.
Heiðrún Helga Bjarnadóttir Back er fædd árið 1982 og alin upp í Borgarnesi fram á unglingsár.
Hún lauk stúdentsprófi af félagsfræðibraut frá Menntaskólanum á Akureyri. Hún lauk BA-prófi í guðfræði frá Háskóla Íslands, þar af tók hún eitt ár í skiptinámi við Durham háskóla á Englandi þar sem hún lagði stund á almenna trúarbragðafræði.
Heiðrún flutti til Kaupmannahafnar árið 2007 og lauk mastersgráðu í trúarlífsfélagsfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Hún lauk mag. theol prófi frá Háskóla Íslands í febrúar á þessu ári.
Lengst af hefur Heiðrún starfað með flóttafólki og innflytjendum, bæði í Sjanghæ og Kaupmannahöfn.
Um þessar mundir hefur Heiðrún sinnt starfi verkefnastýru um móttöku flóttafólks frá Úkraínu á Bifröst.
Eiginmaður Heiðrúnar er Michael Back og eiga þau tvö börn.
slg