Stór stund
Starf kirkjukóra veitir mörgum ánægju og er mikilvægur liður í öllu safnaðarstarfi. Í Brautarholtssókn á Kjalarnesi og Reynivallasókn í Kjós er starfandi sameiginlegur kór, Kirkjukór Reynivallaprestakalls.
Áður en kórónuveirufaraldurinn skall á var kirkjukórinn búinn að skipuleggja ferð til Vínar og Prag en ekkert varð úr henni vegna faraldursins. Ferðinni var frestað og nýr áfangastaður valinn. Barselóna á Spáni.
Í gær söng kirkjukór Reynivallaprestakalls í guðsþjónustu í Maríukirkjunni í Barselóna (Maria Mitjancera de totes les Gràcies). Sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur í Reynivallaprestakalli, söng einsöng. Eftir guðsþjónustuna hélt kórinn litla tónleika sem tókust vel. Fjöldi manns var í kirkjunni og var kórfélögum klappað innilegt lof í lófa. Presturinn sem hafði um hönd guðsþjónustuna þakkaði kórnum fyrir framlagið og síðan var boðið upp á léttar veitingar að spænskum hætti.
Stjórnandi kórsins er ung norsk kona, Maren Barlien, en hún er jafnframt organisti í Reynivallaprestakalli. Hún er nýtekin við af Guðmundi Ómari Óskarssyni sem stjórnaði kórnum farsællega um árabil. Kórfélagar eru um tuttugu og fimmtán þeirra höfðu tök á því að fara í ferðina. Formaður Kirkjukórs Reynivallaprestakalls er Guðni Halldórsson og sá hann um skipulagningu þessarar vel heppnuðu ferðar.
Söngferð kirkjukórs Reynivallaprestakalls til Barselóna á Spáni verður kórfélögum eftirminnileg og gerir kórinn enn öflugri en áður.
slg
Kór Reynivallaprestakalls - sr. Arna Grétarsdóttir söng einsöng
Kórstjórinn Maren Barlien fékk blómvönd frá söfnuðinum - sr. Arna hægra megin
Boðið var upp á veitingar í safnaðarheimili kirkjunnar
Auglýsing um kórsönginn