Kristið fólk hefur alltaf von

27. september 2022

Kristið fólk hefur alltaf von

Sophie, Biskup Íslands og Bjarni Gíslason

Fyrir helgina var stödd  hér á landi Sophie Gebreyes framkvæmdastjóri Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu.

Hún flutti erindi á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar og námsbrautar mannfræðiskors í Háskóla Íslands um ástandið í Eþíópíu og um verkefni Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins og Hjálparstarfs kirkjunnar.

Sophie hefur langa reynslu af stjórnunarstörfum hjá hjálparsamtökum í Afríku og í Suður-Ameríku, þar með talið hefur hún verið framkvæmdastjóri Lútherska Heimssambandsins og Hjálparstarfs Lútherska Heimssambandsins LWF/DWS í Eþíópíu frá árinu 2013.

Sophie lærði lögfræði í Addis Ababa og lauk meistaragráðu í frönsku og þróunarfræðum frá The University of Winnipeg.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur verið í samstarfi við LWF/DWS í Eþíópíu í áratugi og verið þar með sitt stærsta verkefni í þróunarsamvinnu síðan árið 2007.

Í ár og í fyrra hefur Hjálparstarfið einnig fjármagnað mannúðaraðstoð í norðanverðu landinu þar sem hörð átök hafa verið milli stjórnarhers Eþíópíu og Frelsishers Tigray.

Sophie kom í heimsókn á Biskupsstofu og hélt stutt erindi um ástandið í Eþíópíu fyrir starfsfólkið.

Þar kom fram að miklar breytingar hafa átt sér stað í landinu undanfarin örfá ár svo erfitt hefur verið fyrir LWF að vinna að hjálparstarfinu.

Rúmlega fimm milljónir fólks er á flótta og allt það fólk er háð aðstoð hjálparsamtaka.

Síðast liðin fimm ár hefur verið uppskerubrestur svo mikið af bústofninum hefur verið að falla. Tæplega 25 milljónir þjást vegna þess.

Tigray héraðið hefur verið hernumið og þar búa sex milljónir sem lifa við algera einangrun, án rafmagns og vatns og allir bankar eru lokaðir. Það hefur einnig verið lokað fyrir allt hjálparstarfi.

Lútherska Heimssambandið fór að starfa í Eþíópíu fyrir rúmum fimmtíu árum og hefur aðallega unnið þar sem ófriður ríkir. Tuttugu og tveir starfsmenn vinna á skrifstofunni í Addis Ababa, en um 200 vinna við hjálparstarf á vettvangi. Það er allt heimafólk.

Fréttaritari kirkjan.is hitti Sophie á Biskupsstofu og tók við hana örstutt viðtal:

Hver er konan?

„Ég er fædd og uppalin í Eþíópíu, í Addis Ababa og ólst upp í orþódox kirkjunni, sem er mjög fjölmenn heima svo ég er alin upp í kristinni trú.

Þegar ég var 21 árs fluttist ég til Kanada sem flóttamaður og þá studdi Lútherska Heimssambandið mig, svo ég gekk til liðs við lúthersku kirkjuna.

Ég lærði lögfræði í Addis, en tók meistragráðu í frönsku og þróunarfræðum í Kanada. Ég ólst upp bæði við frönsku og ensku.

Ég bjó í Kanada í 18 ár.

Árið 2007 fór ég að vinna hjá LWF í Rúanda, fór svo til Genfar þar sem ég vann í þrjú og hálft ár fyrir kirkjurnar í Suður Ameríku.

Árið 2013 var auglýst staða framkvæmdastjóra LWF/DWS í Eþíópíu og ég sótti um og fékk.“

Hvernig var að koma aftur heim eftir svona langa fjarveru?

„Landið hafði breyst mjög mikið á þessum tíma, en ég hafði sjálf líka breyst. Þegar ég var að alast upp vorum við öll Eþíópu búar og engin aðgreining. Núna þurfa öll að gefa upp hvað þjóðflokki þau tilheyra og aðgreiningin er orðin mikil.“

Hefurðu von um að ástandið batni?

„Kristið fólk hefur alltaf von“ sagði Sophie að lokum með bros á vör og blik í augum.

 

slg


  • Biskup

  • Flóttafólk

  • Heimsókn

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Lútherska heimssambandið

  • Alþjóðastarf

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls