Friður og öryggi er helsta áskorun kirkjunnar
Forseti Lútherska Heimssambandsins Dr. Panti Filibus Musa hefur verið hér á landi undanfarna daga í tengslum við Arctic Circle Assembly, Hringborð Norðurslóða.
Hann tók þátt í pallborðsumræðum ásamt öðrum trúarleiðtogum á fimmtudaginn og hélt framsöguerindi á laugardaginn.
Dr. Musa er erkibiskup í Lúthersku Kristskirkjunni í Nígeríu.
Hann varð biskup árið 2013 og erkibiskup árið 2016.
Dr. Musa var kosinn forseti stjórnar Lútherska Heimssambandsins á 12. Allsherjarþingi LWF sem haldið var í Windhoek í Namibíu í maí 2017.
Hann er þekktur fyrir hógværð sína og samkennd með fátækum og að hafa stuðlað að friðarviðræðum milli trúarbragða.
Auk þess hefur hann barist fyrir jafnrétti kynjanna.
Fréttaritari kirkjan.is hitti dr. Musa í Skálholti á málþingi um umhverfismál sem haldin var þar í aðdraganda Hringborðs norðurslóða.
Tilgangur samtalsins var fyrst og fremst að fá að heyra hver staða kristinna kirkna er í Nígeríu.
Hann þakkaði innilega fyrir að fá tækifæri til að tala um aðstæður í heimalandinu sem er svo fjarri Íslandi.
Hann sagði:
„Kirkjan hefur verið að vaxa gríðarlega í Nígeríu undanfarin ár.
Um 50% þjóðarinnar eru kristnir þ.e. bæði kaþólskir, anglikanar, presbyterians, lútheranar og hvítasunnufólk.
Margar fleiri minni kirkjudeildir eru einnig til staðar.
Í suðurhlutanum eru kristnir í meirihluta, en í norðurhlutanum eru múslimir í meiri hluta.
Lútherska kirkjan er mjög lítil, aðeins um tvær og hálf milljón.
Hún á rætur sínar í danska trúboðinu sem kom til Nígeríu árið 1913 og boðaði trú í norðaustur hluta landsins.
Kirkjan hefur stækkað mjög mikið og er nú líka í suðurhlutanum og stækkar mjög ört.
Kirkjan hefur einbeitt sér að stöðum þar sem fagnaðarerindið hefur enn ekki verið boðað.
Við leggjum líka áherslu á hjálparstarf.
Kærleiksþjónustan er afar mikilvæg hjá okkur.
Við einbeitum okkur að því að kenna, hjálpa og stunda hreinlæti.“
Eru trúboðarnir frá Danmörku ennþá í landinu?
„Nei, ekki lengur.
Nú sjáum við um þetta sjálf.
Trúboðarnir eru öll frá Nígeríu og fara um mörg héruð.
Kirkjurnar hafa verið í fararbroddi í friðarviðræðum milli stríðandi hópa.“
Er það helsta áskorun kirkjunnar?
„Helsta áskorun kirkjunnar er að koma á friði og öryggi.
Það er ekki stríð í eiginlegri merkingu þess orðs, heldur lifa borgararnir við mikið óöryggi.
Það er áskorun fyrir kirkjuna og áskorun fyrir allt samfélagið.
Öfgahópar fara um sem þykjast vera að boða islam, en flest múslimasamfélögin eru ekki sammála þeim.
Þetta eru glæpahópar, ekki trúarsamtök eins og þau kynna sig.“
Er fólkið í þessum öfgahópum frá Nígeríu eða frá öðrum löndum.
Margir eru frá Nígeríu, en svo er líka fólk sem kemur frá nágrannalöndunum.
Þau vinna með þessum glæpahópum.
Hvernig vinnið þið að þessum friðarumleytunum?
Lútherska kirkjan stendur fyrir samtali milli kirkjudeilda og milli trúarbragða.
Við vinnum að því að stuðla að friði og öryggi.
Þetta verkefni er stutt af LWF.
Við fáum ungt fólk saman til að tala saman.
Við vinnum með ungu fólki frá mismunandi kirkjudeildum og ungu fólki frá samfélagi múslima.
Við stuðlum að þessu samtali um mikilvægi friðar og öryggis.
Við vinnum með þessa spurningu: Hvernig getið þið verið friðarfulltrúar í samfélagi ykkar?“
Hver er helsta von kirkjunnar?
„Það verða kosningar á næsta ári.
Við vonum öll að það komi mannúðleg stjórn sem getur tekist á við óöryggi fólksins.
Við verðum að byggja upp öruggt samfélag.
Það skiptir öllu máli fyrir fólk.
Ef það ríkir friður og eining, sem byggð er á réttlæti þá getum við gert mikla hluti.“
Er ríkisstjórnin kristin eða múhameðstrúar eða er það blandað?
„Stjórnin er lýðræðislega kjörin.
Núna er forsetinn múhameðstrúar, en við höfum haft kristna forseta.
Þeir eru kosnir lýðræðislega.“
Finnið þið mun á samfélaginu hvort forsetinn er múhameðstrúar eða kristinn?
„Það er ekki hægt að segja það.
Öllu máli skiptir hver er við stjórnina.
Ef það er heiðarlegur maður sem hægt er að treysta, maður sem treystir Guði, þá skiptir ekki öllu máli hverrar trúar hann er.
Virðing fyrir mannréttindum er aðalatriðið.
Hve mikilvægt er það fyrir Nígeríu að forseti Lútherska Heimssambandsins komi frá þeirra eigin landi?
„Í fyrsta lagi voru allir mjög hissa á því að fulltrúi svo lítillar kirkju skyldi verða kosinn forseti LWF.
En fólk er mjög stolt að heimamaður skuli hafa verið valinn í svo mikilvæga stöðu.
Þau eru hamingjusöm með það að Nígeríumaður leiði alheimssamtök.
Þú talar um að kirkjan sé lítil, en í henni eru tvær og hálf milljón?
„Já, hún er lítil. Í landinu búa 250 milljónir svo þetta er aðeins lítil prósenta, en við getum gert svo mikið með Guðs hjálp.“
Með þá von í brjósti göngum við út í sólskinið í Skálholti og horfum björtum augum til framtíðar.
slg