Öflugt æskulýðsmót á Vopnafirði
Æskulýðsstarf á Norðurlandi og Austurlandi hefur um árabil verið í miklum blóma.
Erfitt var að halda því uppi í faraldrinum, en þó var fræðslufulltrúinn á Austurlandi Berglind Hönnudóttir ótrúlega ötul við að halda úti starfi gegnum tölvu.
Á hún miklar þakkir skildar fyrir það.
Nú er Berglind í fæðingarorlofi og starfandi fræðslufulltrúi á Austurlandi í vetur er Gunnfríður Katrín Tómasdóttir.
Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við Gunnfríði og bað hana um að segja sér frá æskulýðsmótinu sem haldið var fyrir austan.
Gunnfríður sagði:
„Eftir frábæra vinaviku á Vopnafirði komu rúmlega 100 unglingar frá Austurlandi, Akureyri og Dalvík og haldið var landshlutamót.
Það var mikil spenna í loftinu af því að þetta var í fyrsta skipti í lengri tíma sem unglingar sem taka þátt í æskulýðsstarfi kirkjunar gátu komið saman frá ólíkum landshlutum.
Það var gist í Vopnarfjarðarskóla og við fengum að hafa not af félagsheimilinu líka.
Þar fengu krakkarnir að borða og þau fengu fræðslu um vináttu, virðingu og kærleika.
Hæfileikakeppni var haldin og síðan var endað með skemmtilegu balli um kvöldið.
Sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir sóknarprestur á Vopnafirði hélt vel utan um mótið með dyggri aðstoð Hákonar Arnars Jónssonar.
Gleði, virðing og þakklæti einkenndi mótið.“
Fyrir mótið bað fréttaritari kirkjan.is Gunnfríði um að tala við nokkra krakka og biðja þau um að segja sér frá upplifun sinni af mótinu.
Gunnfríður sagði:
„Unglingarnir sem rætt var við sérstaklega voru þakklát fyrir að hitta unglinga frá öðrum svæðum og vilja endilega að þetta verði endurtekið af því að það gefur kraft og líf að hitta aðra unglinga á sömu forsendum.
Rætt var við 14 ára strák og 14 ára stelpu frá Akureyri.
Þau hafa tekið virkan þátt í kirkjustarfi síðustu tvö ár en stelpan á ömmu sem að kynnti hana fyrir kirkjustarfinu og kenndi henni bænir.
Þau hafa mjög gaman að starfinu og það sem stóð upp úr hjá þeim eftir mótið var að fá að hitta aðra unglinga í æskulýðsstarfi.
Gunnfríður talaði líka við fimm stelpur frá Egilsstöðum sem höfðu sömu sögu að segja.
Þeim fannst einstaklega gefandi að hitta aðra unglinga á mótinu á sömu forsendum og þær.
Einnig stóð upp úr að þær unnu hæfileikakeppnina!
Þær sýndu dans sem þær höfðu verið að æfa í tvær vikur fyrir mótið og þær uppskáru erfiðið svo sannarlega.
Einhverjar af þeim höfðu tekið þátt í 6-9 ára starfi, TTT starfi og verið í sumarbúðum á Eiðum og fannst þeim þær vera að uppskera þá vegferð á þessu móti.“
Einnig náði Gunnfríður tali af tveimur drengjum frá Vopnafirði, 13 og 14 ára.
„Þeir hafa tekið virkan þátt í æskulýðsstarfi frá því að þeir máttu vera með og eru mjög ánægðir að uppskera á svona frábæru móti.
Annar þeirra bauð til dæmis öllum þátttakendum mótsins upp á ís í sjoppunni á Vopnafirði!
Þeir útskýrðu svo fyrir okkur hvað vinavikan er, en hún er haldin til þess að minna okkur á að elska náungan og bera virðingu fyrir hvert öðru.
Í vinavikunni sem haldin var í vikunni fyrir mótið var margt um að vera á Vopnafirði.
Þá fóru unglingarnir í heimsókn í leikskólann og á elliheimilið þar sem spilað var bingó.
Þá buðu krakkarnir eillilífeyrisþegum að koma og spila boccia í félagsheimilinu.
Strákarnir sögðu frá því af hverju haldin er vinavika og að þeirra mati finnst þeim mikilvægt að allir upplifi vináttu og umhyggju og að allir beri virðingu fyrir hverju öðru alveg sama hvar við stöndum í þjóðfélaginu.
Það sem stóð upp úr hjá þessum frábæru unglingum sem rætt var sérstaklega við var að það er einstaklega mikilvægt að hitta aðra sem eru í kirkjustarfi því það er svo einstaklega gefandi að hittast á sömu forsendum í lífinu.
„Það er hvetjandi og gleður mann mikið að hitta þau sem að hafa sömu áhugamál og maður sjálfur“ sögðu krakkarnir.
Þegar viðmælendur voru spurðir hvort þau hefðu áhuga á því að hittast á svona móti aftur var eindregið svar:
„ Já, það er mjög mikilvægt.“
Sömuleiðis bætti einn við að það væri einstaklega mikilvægt að hitta aðra unglinga í kirkjustarfi þar sem að staðirnir sem þau eru alin upp á eru litlir.
"Það er svo óendalega hvetjandi að hitta unglinga í kirkjustarfi sem að hafa sömu grundvallar viðmið og við sjálf."
slg