Kirkjuþing sett í Háteigskirkju
Kirkjuþing var sett í Háteigskirkju í dag 22. október.
Var athöfnin öll hin hátíðlegsta og hófst með því að Strengjakvartettinn Siggi lék á fiðlur, víólur og selló.
Kvartettinn skipa Una Sveinbjarnardóttir, Helga Þóra Björgvinsdóttir, Þórunn Ósk Marínósdóttir og Sigurður Bjarki Gunnarssson.
Þá var helgistund í umsjá biskups Íslands.
Eftir helgistundina setti Drífa Hjartardóttir kirkjuþingið og hélt ávarp forseta.
Í ræðu sinni bauð hún sérstaklega velkomið nýtt kirkjuþingsfólk, en nýtt kirkjuþing var kosið s.l. vor.
Nefndi hún að með breyttri skipan eftir að ný þjóðkirkjulög tóku gildi þá ber kirkjuþing ábyrgð á veraldlegum málum og biskup á andlegum málum.
Hún sagði:
„Samstarf á milli þings og biskups er að sjálfsögðu lykilatriði til farsællar vegferðar kirkjunnar í framtíðinni.
Þessu nýja skipulagi fylgja skyldur og ábyrgð.
Ábyrgð á stefnu kirkjunnar, meginþáttum starfa hennar, skipulagi og ráðstöfun fjármuna er ekki hvað síst á hendi kirkjuþings, enda þótt söfnuðirnir, grasrót kirkjunnar og vígðir þjónar, sinni nú sem endranær nærþjónustu við fólkið í landinu.“
Og hún hélt áfram:
„Það er brýnasta verkefni kirkjunnar um þessar mundir að endurheimta traust og trúnað og ná til þeirra sem af einhverjum ástæðum hafa ekki talið sig lengur eiga samleið með Þjóðkirkjunni.
Allt kirkjufólk verður að leggjast á eitt, ekki síst kirkjuþing, sem verður á hverjum tíma að leita allra leiða til að styrkja ásýnd og stöðu Þjóðkirkjunnar í samfélaginu.“
Að lokum benti hún á það sem hún telur allra mikilvægast að kirkjan hugi að, en það er hin metnaðarfulla fræðslustefna sem lögð verður nú fyrir kirkjuþing.
Þá ávarpaði biskup Íslands þingið og sagði m.a.
„Þjóðkirkjan er hvorki fyrirtæki né stofnun.
Hún er trúfélag, félag þess fólks sem vill halda á lofti kristinni lífssýn og fylgja leiðtoganum Jesú Kristi.
Guð hefur engar hendur hér í þessum heimi nema okkar sem kölluð höfum verið til að leiða kirkjuna og feta í spor frelsarans hér á jörð.
Og það eru miklu fleiri hendur en okkar sem erum hér samankomin í dag.
Þetta á við um allt skírt fólk sem ber merki krossins á enni sínu og brjósti.“
Síðan vék hún að ferðum sínum og heimsóknum til safnaða landsins:
„Það eru margir sem elska kirkjuna sína hér á landi.
Á vísitasíum mínum um landið hitti ég fyrir það fólk.
Þau hafa áhyggjur af lækkandi sóknargjöldum sem duga hjá sumum vart til að greiða tryggingar, hita og rafmagn.
Tónlistarstarf og annað starf sem kostar fjármagn er ekki hægt að hafa.
Þið sem í sóknarnefndum sitjið eða hafið setið þekkið þetta og ég fullyrði að þúsundir um land allt halda við menningarminjum þjóðarinnar í sjálfboðavinnu í viðhaldi á kirkjuhúsunum sem mörg hver eru friðuð.
Ríkisvaldið gerir kröfu um það og er það eina kirkjudeildin í landinu sem hefur það lögboðna hlutverk að hafa þjónustu um land allt.„
Og áfram hélt biskup að tala um mannauðinn í kirkjunni:
„Þjóðkirkjan hefur þéttriðið þjónustunet um landið allt þar sem háskólamenntað fólk er valið til að sinna þjónustu við fólkið í landinu.
Þannig hafa kirkjan og þjóðin átt samleið um langan aldur, átt samfylgd á stórum stundum í lífi fólks.“
Biskup Íslands fagnaði útkomu nýrrar sálmabókar sem verður formlega tekin í notkun 13. nóvember, en hefur nú þegar verið send vítt og breitt um landið og söfnuðirnir eru farnir að taka í notkun.
Að lokum sagði biskup:
„Kristnum boðskap þjóðkirkjunnar er ekki þvingað upp á neinn sem ekki vill heyra hann eða meðtaka.
Þannig sýnir kirkjan þjóðinni að henni er ekki sama um þau sem hér búa.
Hún ber virðingu fyrir lífsskoðunum fólks og fagnar því þegar hún finnur að almenningur treystir henni fyrir samleið á stórum stundum lífsins.
Það er meira virði í því að eiga samleið með þjóðinni en að vera í sérstökum tengslum við ríkisvaldið.
Hið síðarnefnda er lagatæknilegt atriði en hið fyrrnefnda snertir mennskuna og það hver við erum sem einstaklingar og þjóð.“
Að lokum ávarpaði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra þingið.
Kirkjuþing heldur áfram í dag og næstu daga, en verður síðan fram haldið í mars á næsta ári.
slg