Krossinn kominn á Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi

31. október 2022

Krossinn kominn á Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi

Þegar ekið er um Hvalfjarðargöng má sjá litla kirkju á vinstri hönd áður en farið er inn í göngin að sunnan.

Þetta er Saurbæjarkirkja á Kjalarnesi.

Saurbær er ævaforn kirkjustaður og var löngum á árum áður mikið höfðingjasetur.

Saurbæjarkirkja er önnur elsta steinkirkja á landinu og var vígð á jóladag árið 1904.

Rúmlega tveimur árum áður hafði timburkirkjan sem stóð á sama stað fokið í ofsaveðri.

Sú kirkja var byggð af Eyjólfi Þorvarðarsyni sem reisti fleiri kirkjur, m.a. í Brautarholti og á Þingvöllum.

Á vef Ferlis segir:

„Kirkjan er lítil (8 x 6 m) en snotur; setloft er yfir framkirkju.

Hún var bændakirkja til 1950 þegar söfnuðurinn tók við henni.

Kirkjan á merka gripi, sem flestir komu til hennar í tíð Sigurðar sýslumanns Björnssonar, sem bjó í Saurbæ 1687-1723.

Í katólskum sið var þar kirkja helguð Jóhannesi skírara.“


Núna lætur þessi kirkja lítið yfir sér, en athugulir ferðalangar hafa ef til vill tekið eftir því að miklar endurbætur hafa verið gerðar á kirkjunni að undanförnu.

Nýlega var settur upp kross á kirkjuturninn og af því tilefni hafði fréttaritari kirkjan.is samband við sóknarprestinn á Reynivöllum, sr. Örnu Grétarsdóttur og spurði um endurbæturnar.

Sr. Arna kvað þetta mikinn áfanga á fá kross á kirkjuna og sagði:

„Síðustu fimm árin hefur sóknarnefnd Brautarholtssóknar staðið fyrir endurbótum á Saurbæjarkirkju.

Töluverðar steypuskemmdir voru á kirkjunni sem blöstu við öllum sem keyrðu hjá.

Kirkjan er friðuð og því hefur sóknarnefndarfólk lagt mikla vinnu í að sækja um styrki og eiga samráð við minjastofun svo rétt sé að viðgerðum staðið.

Sóknarnefndarfólk hefur einnig komið að framkvæmdum.

Björn Jónsson sóknarnefndarformaður og Ólafur Þór Zoega höfðu umsjón með viðgerðum á ytra byrði kirkjunnar.

Það má því segja að allir hafi lagst á eitt svo kirkjan verði Kjalnesingum til sóma.

Ytra byrði kirkjunnar er að mestu komið í gott horf.

Nú þarf að huga að viðhaldi að innan.“

 

Og svo er kominn kross á turninn?

 

„Já, langþráður draumur rættist þegar krossinn fór á turn kirkjunnar í gær.

Ég leyfi mér að segja að krossinn sé nú kominn upp, ekki aðeins til heiðurs Drottni, heldur einnig þeirrar merku konu Önnu Margréti Sigurðardóttur sem lést nú í hárri elli í þessum mánuði.

Hún bjó í Saurbæ og sá alla sína tíð um kirkjuna sem henni þótti svo vænt um.

Henni þótti slæmt að krossinn var ekki kominn upp eftir viðgerðirnar og gekk mjög á eftir því að hann færi upp.“

Og sr. Arna bætti við:

„Krossberarnir á Kjalarnesi eru margir.

Kristjana Jóhannsdóttir gjaldkeri Brautarholtssóknar hefur nú tekið við keflinu af Önnu heitinni í Saurbæ ásamt manni sínum Pétri Óla Péturssyni.

Huginn Frár sonur Kristjönu aðstoðaði ásamt Guðna Ársæli Indriðasyni sóknarnefndarmanni.

Það er margra manna verk að koma einum krossi upp á turn.

Kirkjan er rík að eiga slíka krossbera.

Ég gleðst yfir því að krossinn fór á Saurbæjarkirkju áður en Anna Margrét hin mikla kirkjukona var lögð til hinstu hvílu í Saurbæjarkirkjugarði.“

sagði sr. Arna að lokum.

 

slg






Myndir með frétt

Saurbær á Kjalarnesi-altaristafla
Sr. Arna og Anna Margrét Sigurðaróttir
  • Kirkjustarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sóknarnefndir

  • Kirkjustaðir

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls