Viltu leggja (íslensk) orð í belg?
Á degi íslenskrar tungu veltum við fyrir okkur gildi þess að tala málið sem við ólumst upp við.
Íslenskan er eins og við vitum fornt mál sem á rætur sínar að rekja til Norðurlandanna á þeim tíma sem Ísland var að byggjast.
Á þeim öldum sem íslenska hefur verið töluð í þessu landi hefur hún gengið í gegnum breytingar sem sumar má telja til eðlilegra breytinga, en aðrar eru af erlendum toga.
Á nítjándu öldinni voru nokkrir menntamenn sem höfðu forystu um að vernda tungumálið.
Einn af þeim var Jónas Hallgrímsson, sem einnig var mikill nýyrðasmiður.
Fæðingardagur hans er í dag 16. nóvember, en hann var fæddur árið 1807.
Fæðingardagur Jónasar var valinn dagur íslenskrar tungu vegna áhuga hans á málinu og baráttu fyrir því.
Nú þegar næstum fjórðungur er liðinn af tuttugustu og fyrstu öldinni er mikil umræða í þjóðfélaginu um það hvort íslenskan lifi af.
Þau sem starfa í kirkjunni velta því líka fyrir sér hvort tungutak kirkjunnar hefur að geyma orð sem þjóðin skilur ekki.
Prestar og starfsfólk Fossvogsprstakalls hafa velt þessu fyrir sér og bjóða fólki að leggja orð í belg um merkingu trúarlegra hugtaka.
Þau spyrja sig eftirfarandi spurninga:
Hvernig er með tungatak trúar og kirkju?
Hvað þýðir til dæmis orðið blessun í huga almennings í dag?
Þurfum við hugsanlega að finna ný orð til að fanga inntak trúarinnar og ná betur til fólks í samtímanum?
Í vetur munu þau bjóða almenningi upp á að leggja orð í belg.
Vikulega munu birtast orð á heimasíðu Fossvogsprestakalls og er almenningi boðið að senda inn viðbrögð sín og hugleiðingar.
Almenningur fær þannig tækifæri til að leggja orð í belg, miðla sýn sinni og þekkingu og þannig dýpka skilning fólks á því hvaða orð sé best að nota til að fanga inntak trúarinnar.
Verkefnið er sett í gang í dag í tilefni af degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2022 og mun standa fram eftir vetri.
Dæmi um orð sem birt verða í vetur eru eftirfarandi:
Blessun, náð, aðventa, jól, mildi, auðmýkt, trú, kærleikur, fórn, náungi, fjölskylda, söfnuður, páskar, bölvun, himnaríki, helvíti, Guð, Kristur o.fl.
Almenningur fær því tækifæri til að senda inn útskýringar sínar á einstökum orðum, sem og að koma á framfæri samheiti orðanna, hvaðan það telur að orðið sé upprunnið og öðru sem fólk sér ástæðu til að taka fram.
Til að taka þátt má smella á eftirfarandi slóð:
Orð vikunnar - Blessun | Fossvogsprestakall (kirkja.is)
Fréttir með samantektum á innsendum svörum verða síðan birtar á heimasíðu prestakallsins með reglubundnum hætti.
slg