Vaxtarbroddur kirkjunnar
Eins og fram hefur komið á kirkjan.is þá er sérstök áhersla lögð á barna- og æskulýðsstarf í kirkjunni um þessar mundir.
Einn mikilvægasti vaxtarbroddur þess starfs er TTT starfið, sem er kirkjustarf fyrir tíu til tólf ára krakka.
Í því starfi gefst kostur á að kenna biblíusögur og uppfræða börnin um kristna trú.
Þetta starf fer á flestum stöðum fram á virkum degi eftir að skóladeginum lýkur.
Þá fá börnin gjarnan hressingu, fara í leiki, fá fræðslu og þeim er kennt að biðja.
Í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi er löng hefð fyrir því að bjóða krökkum í TTT starfi í helgardvöl bæði vor og haust.
Slíkt TTT-mót var haldið á Löngumýri 18.-19. nóvember s.l.
Þátttakendur voru úr börn TTT starfi kirkjunnar á Hvammstanga, Skagaströnd, Sauðárkróki, Hofsósi og Hólum ásamt leiðtogum og prestum.
Prestarnir sem þátt tóku að þessu sinni voru sr. Magnús Magnússon á Hvammstanga, sr.Bryndís Valbjarnardóttir á Skagaströnd, sr. Sigríður Gunnarsdóttir á Sauðárkróki og sr.Halla Rut Stefánsdóttir sem sér um TTT starf bæði á Hofsósi og á Hólum í Hjaltadal.
Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Magnús á Hvammstanga og spurði hann um mótið.
Sr. Magnús sagði að þar hefðu komið saman 60 börn, leiðtogar og prestar.
"Mótið skiptist í fræðslu-, leikja- og helgistundir.
Á matmálstímum var boðið upp á dýrindis veitingar af hálfu starfsfólksins á Löngumýri."
Eiga þessi mót sér langa hefð?
"Já, hefðin nær allt til ársins 2001 svo það eru komin yfir tuttugu ár.
Við sr. Sigurður Grétar Sigurðsson og sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir, sem þá var á Sauðárkróki byrjuðum á þessu þá.
Þá var haldið haustmót á Löngumýri og vormót í Vatnaskógi.
Eru vormótin ennþá haldin?
Já, þau eru ennþá haldin í Vatnaskógi.
Þetta datt að vísu niður vorin 2020 og 2021 vegna covid, en við gátum farið núna, vorið 2022.
Hvað fannst krökkunum skemmtilegast á þessu móti?
"Það er alltaf mest gaman að fara í hringlaugina og heita pottinn"
Hvað finnst þér mikilvægast við þessi mót?
"Það er dýrmætt fyrir börnin af svæðinu að hittast í samfélagi trúar og gleði þar sem kristin fræðsla, helgihald og upplifun af heilbrigðum leikjum og útiveru er aðaluppleggið.
Mótin eru líka ákveðnar uppskeruhátíðir í lok hverrar annar og þannig hvatning fyrir börnin að mæta á reglulegu fundina heima fyrir"
sagði sr. Magnús að lokum.
slg