Fjölbreytt safnaðarstarf
Safnaðarstarf í kirkjum landsins er víða afar fjölbreytt.
Í sumum kirkjum er starfsemi alla daga bæði fyrir og eftir hádegi.
Í haust var fitjað upp á nýjung í Seltjarnarneskirkju sem er að hafa morgunkaffi kl. 9:00 f.h. á miðvikudögum.
Það er hugsað fyrir alla aldurshópa og öll kyn, en raunin hefur verið sú að eingöngu karlar hafa sótt þessar stundir.
Þeir leggja áherslu á að þetta sé alls ekki eingöngu fyrir karla.
Þetta er nokkuð sérstakt því að öllu jöfnu er safnaðarstarf víðast hvar betur sótt af konum.
Seltjarnarneskirkja hefur frá árinu 2011 haft svokallað karlakaffi tvisvar í viku á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 14:00.
Er það eingöngu hugsað fyrir karla 67 ára og eldri.
Það hefur verið afar vel sótt.
Á morgunstundunum á miðvikudagsmorgnum hefur Örn Björnsson fyrrum útbústjóri Íslandsbanka á Húsavík verið að lesa úr bók sinni Arnar saga Björnssonar, ekki standa á öðrum fæti allt lífið.
Þar er sagt frá þróun samfélagsins, atvinnulífs og menningu á tímum umbreytinga og mikilla framfara.
Þegar fréttaritari kirkjan.is leit við í morgunkaffi í Seltjarnarneskirkju í morgun sköpuðust líflegar umræður eftir lesturinn.
Á þessum samverustundum er borið fram fallega smurt brauð, smjörkaka og kaffi sem sóknarpresturinn sr. Bjarni Þór Bjarnason hellir uppá.
slg