Kyrrðardagur í Hafnarfjarðarkirkju
Kyrrðarstarf kirkjunnar tekur á sig margar mismunandi myndir.
Þekktast er kyrrðarstarfið í Skálholti þar sem fólk kemur saman, gjarnan yfir helgi, til kyrrðar og íhugunar á lífi sínu og trú.
Þar sem fáir söfnuðir geta boðið upp á gistingu hefur færst í aukanna að kirkjurnar bjóði upp á kyrrð í einn dag.
Þann 19. nóvember síðastliðinn var kyrrðardagur í Hafnarfjarðarkirkju.
Sr. Aldís Rut Gísladóttir prestur kirkjunnar og Bylgja Dís Gunnarsdóttir, æskulýðsfulltrúi kirkjunnar, höfðu umsjón með deginum.
Iðkuð var kyrrðarbæn, sem Bylgja Dís leiddi, en hún hefur iðkað kyrrðarbæn í um 10 ár og er með kennsluréttindi í henni frá Contemplative Outreach.
Kyrrðarbæn er íhugunaraðferð úr kristinni hefð sem hefur verið stunduð í einhverri mynd alveg frá frumkristni.
Kyrrðarbæn er afar einföld iðkun sem fer fram í þögn og gengur út á að hvíla í nærveru Guðs og samþykkja verk heilags anda innra með okkur.
Þótt aðferðin sé einföld leiðir hún til aukinnar sjálfsþekkingar og dýpra sambands við Guð og menn.
Á kyrrðardeginum í Hafnarfjarðarkirkju var einnig stunduð biblíuleg íhugun, samhygðarbæn og gönguíhugun.
Samkvæmt því sem sr. Aldís Rut Gísladóttir sagði fréttaritara kirkjan.is leiddi hún djúpslökun á kyrrðardeginum og léttar yogaæfingar, en hún er menntaður yogakennari og hefur leitt djúpslökun og yoga í kirkjum.
Og sr. Aldís bætti við:
„Snæddur var dýrindis hádegisverður í þögn, en dagurinn fór að mestu leyti fram í þögn og kyrrð.
Dagurinn veitti þátttakendum tækifæri til að íhuga, dvelja og endurnærast í mildi og kyrrð og fékk mjög góðar viðtökur og mikil ánægja var meðal þátttakenda með framtakið.
Sunnudaginn 20. nóvember var svo kyrrðarmessa í Hafnarfjarðarkirkju og þar með lauk þessari kyrrðarhelgi í Hafnarfjarðarkirkju sem verður endurtekin eftir áramót."
slg