Flæðimessa í Skálholtsdómkirkju

1. desember 2022

Flæðimessa í Skálholtsdómkirkju

Flæðimessa í Skálholtdómkirkju

Eins og fram hefur komið á kirkjan.is var mikið um dýrðir í kirkjum landsins á fyrsta sunnudegi í aðventu og verður svo áfram alla aðventuna.

Eitt af því sem fréttaritari kirkjan.is rak augun í var flæðimessa í Skálholtsdómkirkju.

Sr. Dagur Fannar Magnússon sóknarprestur í Skálholtsprestakalli var spurður að því hvaða fyrirbæri þetta væri.

Sr. Dagur Fannar sagði:

„Flæðimessa er form af messu sem er upprunnið frá Bretlandi en flæðimessa er þýðing á "Messy Church".

Í flæðimessunni á fyrsta sunnudegi í aðventu var þemað að sjálfsögðu jólin og aðventan.

Textinn sem við tókum fyrir í messunni var Lúkasarguðspjall 2.8-14:

"En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.

Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá.

Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá:

„Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum:

Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.

Og hafið þetta til marks:

Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:

„Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. "



Í messunni voru unnin verkefni út frá þessum texta.

Kirkjunni var skipt upp í stöðvar og það voru stöðvarstjórar á hverri stöð sem ræddu verkefnið út frá textanum.

Stundin var römmuð inn af samsöng og í þessari stund kveiktum við á fyrsta kertinu á aðventukransinum, spádómakertinu.

Á meðan verkefnin voru unnin spilaði Jón Bjarnason organisti undir en hann spilaði alla jóla- og aðventusálmanna úr nýju sálmabókinni.

Stöðvarnar voru sex talsins:

Fyrsta stöðin var ratleikur þar sem fólkið leitaði að hlutum úr texta dagsins og raðaði þeim í rétta röð.

Síðan komu þau og fengu verðlaun, endurskinsmerki með englum til að lýsa okkur upp í skammdeginu.

Það minnir okkur á að ljós heimsins skín í myrkrinu og við getum endurvarpað því, eða tekið við því og verið líka ljós heimsins eins og Jesús sagði.

Önnur stöðin var ,,Jólatré bænarinnar" sem hangir nú í Maríustúkunni í Skálholtskirkju.

Þar var búið til jólatré úr pappír og á það var látið skraut úr pappír sem á voru bænir sem fólkið samdi sjálft.

Það tengir okkur við hið sígræna tré sem minnir okkur á eilífðina, það er sígrænt og lifandi þótt allar aðrar plöntur visni.

Svo var hægt að hengja bænina er á eilífðina/eilífðartréð sem er nátengt Guðs ríki sem er nú þegar hér, en þó ekki í fullnustu sinni.

Þriðja stöðin var búningastöð þar sem börn og fullorðnir fóru í búninga persóna úr jólaguðspjallinu.

Þar gátu þau sett sig í spor persónanna.

Fjórða stöðin var svo piparkökuskreytingastöð þar sem við skreyttum piparkökur.

Þar vorum við að velta fyrir okkur af hverju við borðum bara piparkökur á jólunum og hvort allir hefðu aðgang að piparkökum eða mat yfirleitt.

Fimmta stöðin var Jólakortagerð, þar sem hugmyndin var að mjög einföld.

Við hugsum til þeirra sem okkur þykir vænt um, en leiðbeiningarnar voru á þann veginn að við áttum að teikna myndir af Maríu og Jósef með litla Jesú barnið og ræða um aðstæður þeirra.

Sjötta stöðin var jólakúlugerð, þar notuðum við vatnsblöðrur og vöfðum garni utan um þær og bleyttum í fljótandi lími.

Það var gaman að sjá að hver og ein kúla var mismunandi og minnti okkur á fjölbreytileika mannkyns.

Við vorum með hvítt garn í grunninn en skreyttum svo með annarskonar lituðu garni.

Það minnir okkur á að við erum eitt mannkyn, en með svo ótal marga eiginleika sem gerir hvert og eitt okkar einstök.

 

Eftir að við vorum búin að vinna með þessi verkefni í svona einn og hálfan tíma var svokallaður fögnuður sem er í raun prédikun út frá öllum verkefnunum.

Þá sungum við annað lag og síðan borðuðum við saman grjónagraut inni í kirkjunni.“

Að lokum sagði sr. Dagur Fannar:

„Það sem er svo skemmtilegt við þetta er að safnaðarvitundin verður svo skýr.

Í svona stórt verkefni kemur fólk á öllum aldri og það eru svo margir boðnir og búnir að taka að sér hlutverk, hvort sem það er að aðstoða við að stilla upp, ganga frá, hita upp grautinn eða vera stöðvarstjórar.

Það voru u.þ.b 50 manns sem mættu á öllum aldri og öllum fannst gaman.

Það má ekki gleyma því að fólk á öllum aldri hefur gaman af því að föndra og leika sér.

Þetta var fyrst og fremst fjölskyldustund, en fjölskylda getur verið svo margt.

Hún getur verið allt frá gömlu karli með hundinn sinn til þessarar svokallaðrar vísitölu fjölskyldu og allt þar á milli.

Þegar allt kemur til alls þá erum við öll ein fjölskylda þegar við komum undir þak kirkjubyggingarinnar.


Þessar flæðimessur eru sameiginlegt verkefni Skálholtsprestakalls og þá koma aðrar sóknir að messunni þó að Skálholtskirkja sé ekki þeirra sóknarkirkja.


Flæðimessur eru hægt og rólega að ryðja sér rúms hér á Íslandi, en flestar hugmyndirnar koma frá sr. Hildi Björk Hörpudóttir sóknarpresti í Reykholtsprestakalli sem lærði family ministry eða tengslamyndandi safnaðarguðfræði í Bretlandi.“


slg




Myndir með frétt

  • Barnastarf

  • Fræðsla

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • List og kirkja

  • Menning

  • Messa

  • Nýjung

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Æskulýðsmál

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls