Sextíu ára afmæli Kópavogskirkju fagnað
Fjórða sunnudag í aðventu þann 18. desember var mikill fögnuður í Kópavogskirkju, en þá var haldið upp á það að 60 ár voru liðin frá vígslu kirkjunnar.
Hörður Bjarnason þáverandi húsameistari ríkisins teiknaði kirkjuna ásamt Ragnari Emilssyni.
Kirkjan er áberandi í bæjarfélaginu og er á merki sveitafélagsins.
Afar sérstök listaverk prýða kirkjuna.
Gerður Helgadóttir á heiðurinn af steindum gluggum, Steinunn Þórarinsdóttir gerði altaristöfluna, sem túlkar fótaþvott Jesú og Barbara Árnason á fallega mynd við hlið altarisins og myndir af guðspjallamönnunum á prédikunarstólnum.
Brynja Sveinsdóttir flutti afar áhugavert erindi í lok hátíðarmessunnar á sunnudag þar sem hún fjallaði um trúarlegt inntak listaverkanna.
Frú Agnes M. Sigurðardóttir prédikaði og prestar kirkjunnar þeir sr. Sigurður Arnarson sóknarprestur og sr. Grétar Halldór Gunnarsson þjónuðu fyrir altari.
Sr. Ægir Sigurgeirsson og sr. Sjöfn Jóhannesdóttir sem bæði hafa þjónað söfnuðinum komu að þjónustunni auk Ástu Ágústsdóttur djákna, Ingibjörgu Valgeirsdóttur og Guðrúnu Lilju Eysteinsdóttur.
Organisti kirkjunnar Lenka Mátéová lék á orgelið og Kór Kópavogskirkju söng.
Kross- og ljósberar voru þrjú fermingarbörn, þau Haraldur Aron Lazar Sorinsson, Mariana Mist Miljevic og Kristján Már Axelsson.
Það var mikið glaðst fyrir 60 árum þegar Kópavogsbúar eignuðust þessa glæsilegu kirkju sem hefur nú fylgt þeim í gegnum áratugina á mörgum mikilvægustu stundum lífs þeirra.
Það var því í þakkargjörð sem fólk kom saman til hátíðarmessunnar.
Eftir hátíðlega stund var öllum boðið í veglegt kirkjukaffi í safnaðarheimilinu Borgum.
Þar mátti líta afmælis- og yfirlitssýningu um Kópavogskirkju; sögu, samtíð og framtíð.
Einnig var táknrænt að líta mátti augum afmælisgjöf frá listamanninum Pétri Geir Magnússyni, verk sem hann vann í samtali við kirkjuglugga Gerðar í Kópavogskirkju.
slg