Helgileikir í kirkjum landsins
Á aðventunni hafa börn um allt land tekið þátt í helgileikjum og kórsöng.
Um jólahátíðina sjálfa taka börn einnig þátt í helgihaldi kirkjunnar á sama hátt.
Algengt er að á öðrum degi jóla séu fjölskylduguðsþjónustur í kirkjum landsins þar sem höfðað er sérstaklega til barnanna.
Í fjölskylduguðsþjónustu í Akureyrarkirkju kl. 11:00 á öðrum degi jóla munu barnakórar kirkjunnar flytja helgileik.
Þetta hefur verið árlegur viðburður lengi, fyrir utan covid árin tvö og mikil spenna fyrir flutningnum í ár.
Svo er jólaball í safnaðarheimilinu eftir messu, með jólasveinum og skemmtilegheitum.
Barnakórar Akureyrarkirkju eru tveir.
Yngri barnakór Akureyrarkirkju er fyrir börn í 2.- 4. bekk grunnskóla og Eldri barnakór Akureyrarkirkju er fyrir börn í 5.- 10. bekk.
Kórarnir syngja við fjölskylduguðsþjónustur í Akureyrarkirkju og gleðja heimilisfólk öldrunarheimila bæjarins reglulega með söng.
Auk þess taka kórarnir þátt í alls kyns söngverkefnum og starfið er afar fjölbreytt.
Næst á dagskrá hjá kórunum er söngur í fyrrnefndri fjölskylduguðsþjónustu í Akureyrarkirkju á öðrum degi jóla.
Þar flytja kórarnir einnig helgileik sem er þaulæfður og fastur liður í helgihaldi kirkjunnar.
Meðfylgjandi mynd er tekin eftir vel heppnaða æfingu í vikunni fyrir jól.
slg