Biskup Íslands gefur út hirðisbréf sitt

2. janúar 2023

Biskup Íslands gefur út hirðisbréf sitt

Biskup Íslands í gleðigöngu

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir tilkynnti í nýársprédikun sinni í Dómkirkjunni í Reykjavík að þann dag hefði komið út hirðisbréf hennar.

Hirðisbréf er bók, sem hver biskup gefur út á biskupstíð sinni þar sem fram kemur sýn biskups á hina kristnu köllun, kirkjuna og samfélagið.

Í prédikun sinni sagði biskup:

„Í dag kemur út hirðisbréf mitt sem er bréf til fólksins í kirkjunni og annarra sem áhuga hafa.

Í bréfinu lýsi ég meðal annars sýn minni á kirkjuna, grundvöll hennar og hvers vegna kirkjunni er ekkert mannlegt óviðkomandi.

Erindi og hlutverk kristinnar kirkju í heiminum byggist á lífi og starfi Jesú Krists sem sagði okkur að koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur og að við eigum að elska Guð, náunga okkar og okkur sjálf.

Þennan skýra kærleiksboðskap hefur kirkjan boðað alla tíð og mun gera um ókomna tíð.“

Í formála að hirðisbréfinu rekur biskup aðdraganda þess að hún var valin til biskupsþjónustu.

Hún fæddist og ólst upp á prestssetrinu á Ísafirði og kynntist prestsstarfinu strax frá blautu barnsbeini.

Því stefndi hugur hennar til þjónustu í kirkjunni allt frá unga aldri.

Hirðisbréfið ber titilinn „Í orði og verki“ og undirtitillinn er -hirðisbréf til fólksins í kirkjunni og annarra fróðleiksfúsra.

Eins og titillinn ber með sér leggur hún mikla áherslu á það í bréfi sínu að kirkjan láti til sín taka í mannréttindamálum, jafnréttismálum, umhverfismálum og öðru því sem varðar líf fólksins í landinu eins og fram kom í nýársprédikuninni.

Þar segir hún:

„Rödd þjóðkirkjunnar í mannréttindamálum hælisleitenda og flóttamanna hefur orðið háværari þar sem krafa um mildi og náð er ofar öllu.“

Allt hirðisbréfið byggir biskup á orði Guðs í Biblíunni, en fyrsti hlutinn er um Hið íslenska biblíufélag, Biblíuna, Biblíuna og nútímann, trúna og kærleiksþjónustuna.

Annar hlutinn er um hirðishlutverkið, skipulag Þjóðkirkjunnar og breytta skipan hennar.

Þriðji hlutinn er um framtíðina og hlutverk kirkjunnar.

Hirðisbréfið er upptaktur að starfslokum frú Agnesar M. Sigurðardóttur sem biskups Íslands.

Tilkynnti hún í nýársprédikun sinni að hún muni ljúka störfum þann 1. júlí árið 2024.

Hún sagði:


„Ég mun ljúka einu mikilvægasta verkefni biskups sem er að vísitera, eða heimsækja alla söfnuði landsins og fara í allar kirkjur landsins.

Ég þakka þeim sem ég hef þegar heimsótt fyrir góðar móttökur og ekki síður fyrir þá þjónustu sem þau veita ekki bara Þjóðkirkjunni heldur þjóðinni allri.“

Og um starfslokin sagði hún:


„Ég hef hugsað mér að enda vísitasíurnar og um leið biskupsþjónustuna með því að syngja með kór í Hólskirkju í Bolungarvík á sjómannadaginn á næsta ári þegar 12 ár verða frá því ég kvaddi þann góða söfnuð.“


slg




  • Biskup

  • Flóttafólk

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Sóknarnefndir

  • Þjóðkirkjan

  • Biblían

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls