Einn sótti um
Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir presti til þjónustu í Austfjarðaprestakalli í Austurlandsprófastsdæmi.
Umsóknarfrestur var til miðnættis 5. janúar 2023.
Ein umsókn barst frá sr. Arnaldi Arnold Bárðarsyni presti í Árborgarprestakalli.
Prestakallið
Austfjarðaprestakall nær frá Brekkusókn í Mjóafirði í austri til Hofssóknar í Álftafirði í suðri.
Það varð til við sameiningu fimm prestakalla árið 2019, Norðfjarðarprestakalls, Eskifjarðarprestakalls, Djúpavogsprestakalls, Heydalaprestakalls og Fáskrúðsfjarðarprestakalls.
Prestakallið nær yfir stórt svæði og m.a. tvö sveitafélög.
Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.
Umsóknin mun fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjandann til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8 gr. starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.
Valnefnd skal ná samstöðu um umsækjandann en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.
Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.
slg