Þrjár konur í prestsstörfum í Borgarfirði
Miklar breytingar hafa orðið á prestsþjónustu í Borgarfirði á undanförnum árum.
Þar þjónuðu lengi vel karlar sem áberandi hafa verið í kirkjunni.
Nú starfa þar þrjár konur.
Sr. Anna Eiríksdóttir þjónar í Stafholti, sr. Hildur Björk Hörpudóttir í Reykholti og sr. Heiðrún Helga Bjarnadóttir í Borgarnesi.
Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við þær og spurði þær hvort einhverjar breytingar hafi orðið á starfinu við þessi prestaskipti og hvort samstarf væri á milli þeirra.
Sr. Anna segir:
"Fyrst og fremst byggir það sem við erum að gera á ákveðinni framtíðarsýn fyrir Borgarfjörðinn í heild sinni, sem hefur allt of lengi starfað í litlum, einangruðum einingum.
Við konurnar hér á svæðinu náum vel saman og sjáum tækifæri í því að við búum allar yfir mismunandi styrkleikum.
Við leggjum áherslu á að styrkleikar hverrar um sig fái að njóta sín.
Þannig getum við best aukið fjölbreytnina í hinu kirkjulegu starfi.
Auk þess eflir það stuðninginn út í söfnuðina.
Það er okkar mottó að vera alltaf með eitthvað í boði fyrir alla."
Og sr. Anna bætir við:
"Það er gott að geta unnið í samstarfi, deila ábyrgð og minnka álag, það eykur starfsgleði og vellíðan."
Sr. Hildur Björk segir:
"Ég tek undir með Önnu en einn helsti ávinningur þessa samstarfs er líka nýsköpun og nýungar í safnaðarstarfi.
Saman geta prestaköllin boðið til dæmis upp á metnaðarfulla fermingarfræðslu sem er ætluð bæði fermingarbörnum og foreldrum þeirra.
Við getum boðið upp á dansmaraþon sem er sólarhringssamvera til að safna fyrir vatni fyrir Hjálparstarfið.
Við vinnum saman að undirbúningi fyrir flæðimessur, þemamessur, barnastarf og fleira.
Helstu breytingarnar eru fólgnar í því að við tókum af skarið og bjuggum okkur til samstarfs- og samvinnusvæði sem áður var ekki til."
Og hún bætir við:
"Það er líka nauðsynlegt að huga að framtíðinni þar sem þetta svæði verður líklega eitt prestakall ef sameiningar halda áfram.
Við viljum að sóknarbörnin hér upplifi okkur sem teymi og í fullri samvinnu sem nái bæði yfir starfið í heild, bakvaktar og afleysingarþjónustu og að saman fáum við að búa til framtíðarsýn fyrir kirkjurnar í Borgarfirði."
Að lokum segir sr. Hildur Björk:
"Svo munar öllu að eiga gott samstarfsfólk og sóknarnefndarfólk sem hefur tekið rosalega vel í þessar breytingar og unnið þetta með okkur og stutt okkur áfram."
Sr. Heiðrún Helga er nýkomin til starfa í Borgarnesi, byrjaði þar þann 1. nóvember á nýliðnu ári.
Hún er mjög kunnug svæðinu þar sem hún er fædd og uppalin í Borgarnesi fram á unglingsár.
Hún flutti með fjölskyldu sinni aftur í Borgarnes árið 2018 og hefur frá því sinnt störfum meðhjálpara og kirkjuvarðar við Borgarneskirkju, auk þess sem hún hefur séð um barna- og æskulýðsstörf við söfnuðinn.
Varðandi samstarfið í Borgarfirði sagði sr. Heiðrún Helga að lokum:
"Það er engu við svör kollega minna að bæta.
Þær ramma það fallega inn, um hvað þetta samstarf snýst."
slg