50 ára vígsluafmæli

10. febrúar 2023

50 ára vígsluafmæli

Vígsluafmæli sr. Karls Sigurbjörnssonar

Sr. Karl Sigurbjörnsson fyrrum Biskup Íslands átti 50 ára vígsluafmæli um síðastliðna helgi, en hann vígðist í Dómkirkjunni í Reykjavík 4. febrúar árið 1973 til Vestmannaeyja, þar sem byggðin var smám saman að hverfa undir ösku og hraun.

Það var faðir hans dr. Sigurbjörn Einarsson þáverandi Biskup Íslands, sem vígði hann til þessarar þjónustu.

Í ársbyrjun 1975 tók hann við þjónustu í Hallgrímskirkju og þjónaði þar allt þar til hann var kosinn Biskup Íslands árið 1997.

Í prédikun sinni í Dómkirkjunni í Reykjavík síðast liðinn sunnudag minntist sr. Karl ástandsins í Eyjum daginn sem hann vígðist.

Hann sagði

„Þegar ég stóð hér í Dómkirkjunni fyrir 50 árum á vígsludegi var söfnuðurinn sem ég vígðist til á flótta undan skelfilegum náttúruhamförum.

Heljarhrammur jarðeldanna hafði lagst yfir blómlega byggð, mulið undir sig traustustu mannvirki, öskuregn færði allt í kaf.

En kirkjan, gamla Landakirkja stóð uppljómuð á baksviði eldgangsins og öskusortans.

Hollvinir hennar höfðu kveikt öll ljós í kirkjunni áður en þeir yfirgáfu eyjuna og héldu til móts við óvissuna.

Ljósin skyldu lýsa þeim sem urðu að flýja og lýsa þeim sem voru eftir við hættuleg björgunarstörf.

Að baki kirkjunni stóð kirkjugarðshliðið upp úr öskunni með áletruninni, orð Jesú:

"Ég lifi og þér munuð lifa."

Þetta er mér æ síðan mynd kirkjunnar og hlutverks hennar í samfélaginu í nútíð og framtíð:

Ljós í myrkri og orð vonarinnar.

Ef kristnin er að hverfa undir öskumekki óttans, ef grunnstoðirnar sligast undir fargi sinnuleysis og vantrúar.

Já, hvað þá?

Feðgarnir sem kveiktu ljósin í Landakirkju þessa skelfingarnótt létu umhyggjuna um helgidóminn og samferðarfólk sitt á flóttanum stýra verkum sínum og minntu á hvar grunnurinn er og gæfuleiðin.

Það skulum við líka gera.“


Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við Laufeyju Böðvarsdóttur kirkjuhaldara í Dómkirkjunni og spurði hana um messuna.

Hún sagði:

„Þetta var dásamleg og dýrmæt messa í Dómkirkjunni.

Kirkjugestir létu veðrið ekki stoppa sig, því þrátt fyrir storm og mikla úrkomu þá flykktist fólk til messu.

Sr. Karl Sigurbjörnsson biskup fagnaði 50 ára vígsluafmæli sínu og að vanda mæltist honum hið besta og vakti söfnuðinn til umhugsunar með myndrænum líkingum og beinskeyttum athugasemdum í bland við gamanyrði og hnittni sem lét engan ósnortin.

Persóna og boðskapur sr. Karls er landi, kirkju og þjóð sannkallaður sálusjóður á óvissutímum er æ fleiri velkjast í vafa og leita styrks og stoða.

Að lokinni messu var messukaffi þar sem Einar. S. Gottskálksson formaður sóknarnefndar hélt ræðu og þakkaði sr. Karli fyrir allt það góða sem hann hefur unnið á akri Drottins.

Kærleiksrík stund og gott samfélag."

 

sagði Laufey að lokum.


Á myndinni sem fylgir fréttinni eru þau Ástbjörn Egilsson, Hrönn Marinósdóttir, Árni Árnason, Einar Gottskálksson, Hermann Sveinbjörnsson, Thor Aspelund, Oddur Björnsson, Kristín Arngrímsdóttir, Helga Hjálmtýsdóttir, Karl Sigurbjörnsson og Elínborg Sturludóttir.

 

slg


  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Biskup

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls