Sálmamaraþon í sjónvarpi

15. febrúar 2023

Sálmamaraþon í sjónvarpi

Nýja sálmabókin

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir sendi kórum, organistum, prestum, sóknarnefndum og öðru starfsfólki kirkjunnar svohljóðandi bréf í morgun:

„KIRKJAN ÓMAR ÖLL!

Sálmamaraþon kirkjunnar verður haldið dagana 19. maí – 21. maí 2023.

Þetta glæsilega og mikilvæga verkefni er samstarf þjóðkirkjunnar og Ríkissjónvarpsins.

Í því felst að frá kl. 17:30 föstudaginn 19. maí til kl. 18:30 sunnudaginn 21. maí verða sálmar nýju sálmabókarinnar sungnir í réttri röð, í beinni útsendingu sjónvarps, dag og nótt.

Sent verður út frá fimm kirkjum; Langholtskirkju í Reykjavík, Ísafjarðarkirkju, Akureyrarkirkju, Egilsstaðakirkju og Skálholtskirkju.

Verkefnisstjórn er í höndum Margrétar Bóasdóttur og Péturs G. Markan, ásamt fulltrúum sjónvarps.

Útsendingarstjóri verður Helgi Jóhannesson.

Sálmamaraþon er sams konar og gert var í Noregi árið 2014, en þeirra sálmabók kom út árið 2013.

Hér  má sjá slóð á útsendingar norska sjónvarpsins.


Það er ósk þjóðkirkjunnar að Sálmamaraþon verði sameiginlegt verkefni allra sókna og prestakalla landsins og tvíþætt markmið þess náist, þ.e. að allir söngkraftar kirkjunnar taki höndum saman og að við eignumst myndband af öllum sálmum sálmabókarinnar.

Á næstu dögum og vikum verða sendar nánari upplýsingar til organista um skráningu til þátttöku, tímasetningar söngs og sálmanúmer fyrir hvern flytjendahóp.

Þetta er afar yfirgripsmikið verkefni og þarfnast samhæfingar á mörgum stöðum.

Ég vona og bið þess að allir vilji leggja það af mörkum sem þeim er mögulegt til að gera Sálmamaraþon að glæsilegum og ógleymanlegum viðburði.

Taka skal fram að engar greiðslur verða í boði fyrir þátttöku en komið verður til móts við þá kóra sem þurfa um lengstan veg að fara með ferðastyrkjum.

Ríkissjónvarpið greiðir gjöld til STEFs samkvæmt gildandi samningum milli þeirra.

Þjóðkirkjan áskilur sér ótímabundinn rétt til að birta myndböndin á vef Sálmabókarinnar.

Myndböndin munu efla kynningu og notkun sálma í framtíðinni og er það í samhljóðan við það sem varð í Noregi.

Ríkissjónvarpið áskilur sér ótímabundinn rétt til að birta myndbönd í dagskrá sinni, í tengslum við kirkjulega dagskrá og menningartengt sjónvarpsefni.

Þetta er samhljóða því fyrirkomulagi sem haft var í Noregi.

Ég sendi ykkur hlýjar kveðjur í vetrarumhleypingunum og biðjum þess að þátttaka ykkar allra verði til gleði og blessunar fyrir söfnuði ykkar og kirkjuna alla.“

 

slg



  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • List og kirkja

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Sóknarnefndir

  • Tónlist

  • Biskup

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls