Öflugt starf eldri borgara í Reykjavík

16. febrúar 2023

Öflugt starf eldri borgara í Reykjavík

Þórey Dögg Jónsdóttir djákni

Starf eldri borgara er víða öflugt bæði í kirkjum landsins og í því starfi sem prestar og djáknar annast á dvalarheimilum og sjúkrastofnunum.

Kirkjan.is hefur undanfarið sagt frá starfinu víða um land, en hér í Reykjavík er djákni í fullu starfi sem heldur utan um og styður starf eldri borgara í Reykjavík.

Hún heitir Þórey Dögg Jónsdóttir og fréttaritari kirkjan.is hafði samband við hana og spurði hana um það í hverju starf hennar væri fólgið.

 

Þórey Dögg sagði:

„Starfið mitt er alveg ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt.

Það er bæði krefjandi og gefandi í senn, bara eins og störfin okkar allra sem vinnum í kirkjunni.

Ég vinn fyrir Reykjavíkurprófastsdæmin bæði þ.e. eystra og vestra.

Í þeim eru samtals 20 kirkjur og bjóða þær allar upp á starf fyrir okkar dyggasta hóp, eldri borgara, en með mismunandi hætti þó.

Í grunninn eru verkefni Eldriborgararáðs fyrir kirkjurnar tvíþætt.

Annars vegar er ég bakhjarl allra þeirra sem sinna starfi eldri borgara í prófastsdæmunum, þ.e. starfsfólksins og sjálfboðaliðanna sem taka á móti eldri borgurum í sínar kirkjur.

Ég fer á milli kirknanna og leysi af í eldriborgarastarfinu, kem í heimsóknir með fyrirlestra, erindi og ýmisleg skemmtilegheit.

Fyrir fulltrúana í Eldriborgararáði sem er starfsfólkið og sjálfboðaliðar sem oftast eru tveir til fjórir frá hverri kirkju, er ég með fræðslu og skemmtifundi, held námskeið, býð til jólagleði og vorhátíðar og þrjár sérstakar eldriborgaramessur eru haldnar á hverju starfsári.

Hinn hlutinn af starfinu mínu er alveg sérlega skemmtilegur, en það er að standa fyrir orlofsdvöl fyrir eldri borgara af landinu öllu á Löngumýri í Skagafirði.

Það eru um það bil 200 manns sem dvelja hjá okkur fyrir norðan á hverju sumri í gleði og kærleika og fer þessi þáttur starfsins sívaxandi.

 

Hvernig er starfinu háttað í hvoru prófastsdæmi um sig?


Það er nokkurn veginn með sama hætti í þeim báðum.

Flestar kirkjur bjóða upp á starf einu sinni í viku með helgistund, máltíð og samverum þar sem gestir koma í heimsókn, tekið er í spil, föndrað eða bara spjallað og samveru notið.

Nokkrar kirkjur eru með starfið tvisvar í mánuði og þá með svipuðu sniði og svo er að minnsta kosti ein kirkja sem er með samveru einu sinni í mánuði og þá að kvöldi til með matarveislu og skemmtiatriðum.

Starfið í öllum þessum kirkjum er afar fjölbreytt og skemmtilegt en þó má segja að tveir þættir séu ríkjandi í samverum allra kirknanna.

Annars vegar er það að næra trúarþörf okkar og hins vegar að uppfylla þá grunnþörf sem ég tel að búi í okkur öllum, en það er löngunin til að tilheyra, vera hluti af samfélagi.

Allar þessar 20 kirkjur eru með innihaldsríkt starf fyrir eldri borgara og ég hvet alla til að taka þátt í starfinu, ekki bara í sinni „heimakirkju“ heldur fara einnig á milli kirkna, sjá hvað er í boði þar og kynnast nýju fólki.

Þess ber að geta að þó ég nefni þetta góða starf okkar í kirkjunni starf eldri borgara er það auðvitað bara samheiti yfir þessar samverur.

Í þetta félagsstarf sækir fullorðið fólk á öllum aldri, hjá okkur eru engin aldurstakmörk og allir velkomnir.“

 

Hver er Þórey Dögg?


„Ég er djákni og framkvæmdastjóri Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma.

Í haust hef ég gegnt þessari stöðu í 10 ár.

Ég er gift, þriggja barna móðir og á fimm ömmubörn og svo er ég gæsamamma, ég á stóran aðdáendahóp af gæsum!

Þær koma og gogga í skrifstofugluggann minn í Breiðholtskirkju til að minna á sig.

Ég elska allt ræktunarstúss og nærist best í sumarbústaðnum mínum í Grímsnesinu.

Starfið mitt elska ég vegna þess að þar get ég gefið af mér til annarra og þegið lífsnæringu og kærleika að launum“

sagði Þórey Dögg að lokum.

Með fréttinni fylgja myndir af gæsunum sem Þórey Dögg gefur brauð með olíu og hvað sem er til að bjarga frá mataarsóun.

 

 

slg




Myndir með frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Öldrunarþjónusta

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Eldri borgarar

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls