Mannréttindakvöldin hefjast að nýju
Mannréttindakvöld hafa verið haldin reglulega í Grafarvogskirkju frá því í september.
Kirkjan.is sagði frá þessu í frétt í haust.
Nú eru þau að hefjast að nýju og af því tilefni hafði fréttaritari kirkjan.is samband við sr. Guðrúnu Karls- Helgudóttur sóknarprest í Grafarvogskirkju og spurði hana um það hvernig hefði gengið á þessum kvöldum og hvað sé framundan núna.
Sr. Guðrún sagði:
„Fyrir áramót voru tekin fyrir mannréttindi hinsegin fólks, mannréttindi fólks með fötlun og mannréttindi barna.
Mannréttindakvöldin hafa verið vel sótt og hafa verið byggð upp með þeim hætti að frummælendur hafa verið tveir til þrír.
Þar hefur annars vegar verið um að ræða einhvern frá kirkjunni og hins vegar hafa komið sérfræðingar í málefninu sem fjallað er um.“
Og hvað er svo framundan?
"Nú höldum við áfram og fimmtudaginn 2. mars verður fjallað um mannréttindi flóttafólks.
Frummælendur eru sr. Toshiki Toma prestur innflytjenda, Eyrún Ólöf Sigurðardóttir mannfræðingur og aðjúnkt í Háskóla Íslands og Kristjana Fenger lögfræðingur hjá Rauða krossinum.
Lára Bryndís Eggertsdóttir organisti kirkjunnar og Rannveig Iðunn Ásgeirsdóttir söngkona munu flytja tónlistaratriði.
Í næsta mánuði eða þann 13. apríl næstkomandi verður fjallað um borgaraleg réttindi og þann 4. maí verða mannréttindi eldri borgara á dagskrá.“
Hvert er markmiðið með þessum kvöldum?
„Markmiðið er annars vegar að vekja athygli á mannréttindum ákveðinna hópa og mögulegum misbrestum á þeim auk þess að skoða hvernig kirkjan getur lagt sitt að mörkum.
Það er jú, hlutverk kristinnar kirkju að fylgja því eftir að allt fólk búi við mannréttindi.
Á mannréttindakvöldunum eru einnig flutt tónlistaratriði er tengjast hverju málefni fyrir sig“
sagði sr. Guðrún að lokum.
slg