Afmælishátíð í Breiðholtskirkju
Hátíðaguðsþjónusta var haldin í Breiðholtskirkju í Reykjavík sunnudaginn 12. mars kl. 11:00 í tilefni af 35 ára afmæli Breiðholtskirkju og 50 ára afmæli safnaðarins, sem ekki var hægt að halda í fyrra.
Sr. Jón Ómar Gunnarsson og sr. Pétur Ragnhildarson prestar kirkjunnar og djákni hennar Steinunn Þorbergsdóttir þjónuðu í guðsþjónustunni ásamt sr.Ásu Laufeyju Sæmundsdóttur, sem er einnig prestur við kirkjuna, en þjónar aðallega Alþjóðlega söfnuðinum ásamt sr. Toshiki Toma presti innflytjenda, en heimili Alþjóðlega safnaðarins er einmitt í Breiðholtskirkju.
Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir predikaði af þessu tilefni.
Örn Magnússon organisti kirkjunnar leiddi tónlistina ásamt kór Breiðholtskirkju.
Veislukaffi var í safnaðarheimilinu að athöfn lokinni.
Þess má að lokum geta að kór Breiðholtskirkju hélt tónleika þann 11. mars í tilefni afmælisins og þar voru frumflutt tvö kórverk eftir Steingrím Þórhallsson.
Það voru mótteturnar Santa María, Succurre Miseris og Ave Santisima virgo Maria.
Breiðholtskirkja er ein af þremur kirkjum í Breiðholti, hinar tvær eru Seljakirkja og Fella- og Hólakirkja.
Breiðholtssöfnuður var stofnaður þann 14. janúar 1972 en bygging kirkjunnar hófst árið 1978 þegar sr. Lárus Halldórsson, þáverandi sóknarprestur og fyrsti prestur safnaðarins, tók fyrstu skóflustungu að kirkjunni.
Kirkjan er byggð eftir teikningu Guðmundar Kr. Kristinssonar og Ferdinands Alfreðssonar arkitekta og Harðar Björnssonar byggingarverkfræðings.
Steypuvinnu við kirkjuna lauk árið 1980 en kirkjan var vígð 13. mars árið 1988.
Sr. Gísli Jónasson var kosinn sóknarprestur árið 1986 þegar sr. Lárus Halldórsson lét af störfum.
Sr. Magnús Björnsson tók við af honum, þegar sr. Gísli gerðist héraðsprestur Reykjavíkuprófastsdæmis eystra ásamt prófastsstörfum sínum.
Núverandi sóknarprestur er sr. Jón Ómar Gunnarsson.
Með honum þjónar sr. Pétur Ragnhildarson, en þeir þjóna bæði Breiðholtskirkju og Fella- og Hólakirkju sem nýlega hafa verið verið sameinaðar í eitt prestakall.
Myndir með fréttinni tók Vigdís v. Pálsdóttir fyrrverandi formaður sóknarnefndar.
slg