Áhugavert samstarf kirkju og skóla
Nemendur Fjölbrautarskólans við Ármúla efna til listasýningar í safnaðarheimili Grensáskirkju undir handleiðslu kennara sinna.
Sýningin opnaði föstudaginn 31. mars og stendur hún fram yfir páska og út aprílmánuð.
Fjölbrautarskólinn við Ármúla og Grensáskirkja efndu í upphafi ársins til samstarfs um táknin í kirkjunni, myndlist og myndlistarsýningu.
Grensáskirkju prýða glerlistaverk eftir okkar helsta listamann á því sviði, Leif Breiðfjörð.
Glerlistaverk Leifs eru rík af táknum og litum.
Kennarar við listadeild Fjölbrautarskólans við Ármúla heimsóttu Grensáskirkju í vetur þar sem starfsfólk Grensáskirkju tók á móti hópnum ásamt Leifi Breiðfjörð og Sigríði Jóhannsdóttir eiginkonu hans og samstarfskonu.
Leifur og Sigríður fjölluðu um gluggana, aðdragandann að gerð þeirra, framkvæmdina, uppsetninguna og þau tákn sem gluggana prýða.
Einnig heimsótti sr. Þorvaldur Víðisson sóknarprestur í Fossvogsprestakalli kennara og nemendahóp í Fjölbrautarskólanum við Ármúla í vetur þar sem hann kynnti jafnframt táknin sem finna má í Grensáskirkju.
Grunnform Grensáskirkju er samkvæmt því sem arkitektinn hafði í huga þegar hann teiknaði bygginguna, en það voru biðjandi hendur.
Kirkjuskipið sjálft á sem sagt að minna á biðjandi hendur.
Múrsteinsveggur vesturgaflsins er einnig táknrænn og ýmislegt fleira sem þar hefur djúpa táknræna merkingu.
Byggingin er því rík af táknum og heppileg til slíkrar kennslu og miðlunar.
Í kjölfar umfjöllunar um táknin í kirkjunni unnu nemendur verkefni undir handleiðslu kennara sinna og sýna nú afraksturinn í safnaðarheimili Grensáskirkju.
Hluta afrakstursins má sjá á myndunum sem fylgja þessari frétt.
Safnaðarheimili Grensáskirkju er opið mánudaga til fimmtudaga frá klukkan 10:00 til 15:00.
Einnig er opið alla sunnudaga frá kl. 10:00 til 12:30.
slg