Fólkið í hverfinu tengist kirkjunni sterkum böndum
Kirkjuafmæli eru ævinlega hátíðlegar stundir og nú á vordögum hafa verið haldin nokkur kirkjuafmæli á höfuðborgarsvæðinu.
Má þar nefna 35 ára afmæli bæði Breiðholtskirkju og Fella- og Hólakirkju.
Á páskadag hélt svo Hjallakirkja í Kópavogi upp á 30 ára afmæli sitt.
Var það gert við hátíðarmessu kl. 9:00 á páskadagsmorgunn.
Eftir messuna var morgunverður og afmæliskaka í boði.
Sóknarnefndin sá um veitingarnar og lagði á borð.
Sr. Alfreð Örn Finnson sóknarprestur í Digranes- og Hjallaprestakalli prédikaði og þjónaði fyrir altari.
Matthías V. Baldursson organisti lék á hljóðfærið, Áslaug Helga Hálfdánardóttir söng einsöng ásamt Vox Gospelkór Hjallakirkju.
Að sögn sr. Alfreðs var fínasta mæting og meðal annars kom fólk sem var í sóknarnefnd þegar kirkjan var vígð fyrir 30 árum.
„Það var góður andi og fín stund og frábært samfélag eftir messuna“
sagði hann.
Í prédikun sinni ryfjaði hann upp sögu kirkjunnar og sagði meðal annrs:
„ Hjallasókn var mynduð með skiptingu Digranessóknar.
Stofndagur var 25. maí 1987 á fundi í Digranesskóla.
Sr. Kristján Einar Þorvarðarson var valinn fyrsti prestur safnaðarins.
Safnaðarstarf hófst í Digranesskóla en messuheimili safnaðarins var vígt í skólanum hinn 10. janúar 1988.
Gert var ráð fyrir kirkju á lóðinni við Álfaheiði og fyrsta skóflastungan var tekin 19. maí 1991.
Kirkjan var síðan vígð á páskadag 11. apríl 1993.“
Og hann bætti við:
„Það er forvitnilegt að skoða myndir frá byggingu kirkjunnar, umhverfið er orðið ansi mikið gróið í samanburði við árið 1993.
Það er gaman að lesa um sögu sóknarinnar og hversu stórhuga fólk var.
Starfið hófst í skólabyggingu en mjög fljótlega farið að huga að byggingu kirkjunnar.
Það er ósanngjarnt að minnast á einstaka presta eða starfsfólk en gaman að minnast á að prófasturinn okkar sr. Bryndís Malla þjónaði Hjallasókn 95-96 og sr. Guðmundur Karl sóknarprestur í Lindakirkju þjónaði við Hjallakirkju þegar Lindasókn var stofnuð 2002 og færði sig þangað yfir.
Lindasókn og hverfið sem er vissulega orðið ansi stórt í dag tilheyrði því Hjallasókn fram til ársins 2002.
Kirkjunni okkar hefur verið vel haldið við, fólkið í hverfinu tengist kirkjunni sinni sterkum böndum og hér er öflugt starf og sóknarnefnd sem ber hag kirkjunnar sinnar og útbreiðslu góðu fréttanna fyrir brjósti.“
slg