Bústaðakirkja er mikilvægur vettvangur hátíðahalda á sumardaginn fyrsta
Áralöng hefð er fyrir mikilli hátíð í Fossvoginum á sumardaginn fyrsta.
Gott samstarf er á milli stofnana og félagasamtaka sem taka þátt í skipulagningu dagskrárinnar.
Dagskráin á sumardaginn fyrsta hófst með grillveislu í Grímsbæ, þar sem sjálfboðaliðar frá Knattspyrnufélaginu Víkingi stóðu vaktina við grillið.
Krambúðin gaf veitingarnar og fjölskyldur og börn komu saman.
Frá Grímsbænum var haldið af stað í skrúðgöngu klukkan 12:00 þar sem Skátafélagið Garðbúar leiddi gönguna undir taktfastri tónlist frá Skólahljómsveit Austurbæjar.
Stjórnandi skólahljómsveitarinnar er Snorri Heimisson.
Fylkingin gekk yfir Bústaðaveginn, upp Tunguveginn í átt að Bústaðakirkju.
Þegar skrúðgangan var kominn á planið við Bústaðakirkju, lék Skólahljómsveitin nokkur lög undir stjórn Snorra Heimissonar.
Inni í kirkjunni söng Barnakór TónGraf og TónFoss þrjú lög undir stjórn Eddu Austmann og Auðar Guðjohnsen, við undirleik Ástu Haraldsdóttur kantors Grensáskirkju.
Séra Eva Björk Valdimarsdóttir prestur í Fossvogsprestakalli leiddi stundina í kirkjunni.
Félagar úr 7. bekk Fossvogsskóla fluttu þvínæst frumsamið lag Alexander on the wing.
Þar sungu þeir til Alexanders Mána Curtis stuðningsfulltrúa í Fossvogsskóla, en í textanum kom fram að þeir vilja alls ekki að Alexander láti af störfum núna í vor.
Þeim finnst greinilega mikið til hans koma og sungu þeir af mikilli innlifun.
Hólmfríður Ólafsdóttir djákni í Bústaðakirkju ól börnin sín upp í Fossvoginum og hefur starfað í Bústaðakirkju í yfir áratug.
Hún hélt hátíðarræðu og miðlaði reynslu sinni af því góða samfélagi sem er í Fossvoginum, sem birtist m.a. á sumardaginn fyrsta.
Sagði hún að margir ættu jákvæða reynslu af því að búa í Fossvoginum.
„Knattspyrnufélagið Víkingur er vettvangur okkar flestra og margra barna og ungmenna, skátarnir, félagsmiðlstöðin, skólarnir, kirkjan, þjónustumiðstöðvar borgarinnar, verslanir og hvað annað.
Allt eru þetta mikilvægir þættir góðs samfélags.“
Dagskránni í Bústaðakirkju lauk með einsöng Heiðrúnar Lóu, sem söng lag eftir Adele.
Hún verður fulltrúi hverfisins í söngvakeppni félagsmiðstöðvanna.
Þegar komið er inn í Bústaðakirkju blasa við listaverk barna.
Það eru listaverk barna af leikskólunum Garðaborg, Kvistaborg og Furuskógum, sem eru til sýnis í anddyri kirkjunnar.
Þar gefur að líta fjölbreytt úrval listaverka sem flest ef ekki öll minna á vorið og sumarið sem framundan er.
Dagskráin hélt síðan áfram í Víkinni, þar sem hoppukastalar voru í boði fyrir börnin, ís og fótboltagolf.
Kaffi og kleinur voru á boðstólnum fyrir hina fullorðnu.
Lesa má nánar um hátíðina á vef Fossvogsprestakalls.
slg