Sr. Irma Sjöfn sett í embætti sóknarprests

28. apríl 2023

Sr. Irma Sjöfn sett í embætti sóknarprests

Prófastur setur sr. Irmu Sjöfn í starf sóknarprests

Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir var formlega sett inn í starf sóknarprests í Hallgrímskirkju við messu sunnudaginn 23. apríl 2023 klukkan 11:00.

Sr. Irma Sjöfn er fyrsta konan sem gegnir því hlutverki við kirkjuna, en hún hefur verið prestur við kirkjuna í átta ár.

Prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis vestra, sr. Helga Soffía Konráðsdóttir, annaðist innsetninguna.

Kór Hallgrímskirkju söng við messuna og organisti var Steinar Logi Helgason.

Gestakór frá Noregi, Kammerkoret Ensemble 96, söng einnig í messunni.

Eftir messuna naut fólk samfélags yfir kaffiveitingum.

Guðspjall þessa sunnudags, sem var sunnudagur eftir páska var Góði hirðirinn og lestrar dagsins tóku mið af því og efni prédikunar.

Sr. Irma Sjöfn tók við starfi sóknarprests þann 1. apríl síðastliðinn, þegar dr. Sigurður Árni Þórðarson lét af störfum og var sóknarnefnd Hallgrímskirkju einhuga í þeirri ákvörðun að fá sr. Irmu Sjöfn í stöðuna.

Sr. Irma Sjöfn kveðst taka við nýju hlutverki af mikilli gleði, tilhlökkun og þakklæti.

Þrátt fyrir það að Hallgrímskirkja sé þjóðarhelgidómur og einn vinsælasti ferðamannastaður landsins þá er í kirkjunni að sögn sr. Irmu Sjafnar
„gott nærsamfélag, trúfastur kjarnasöfnuður og frábært samstarfsfólk.

Ég mun standa vaktina með fólki sem er svo mikilvægur hluti af menginu, hinn almenni prestsdómur, samkvæmt lútherskum skilningi og viðhorfi.

Söfnuðurinn er magnaður; hlustar, hvetur og tekur þátt,“

segir sr. Irma Sjöfn og minnir á að Hallgrímskirkja iðar af lífi alla daga.

„Hingað koma þúsundir ferðamanna og stansa í stutta stund.

Pílagrímar sem skynja fegurðina, skilja eftir bænarorð og loga á kerti á ljósberanum.“

Sr. Irma Sjöfn var vígð sem aðstoðarprestur í Seljaprestakalli árið 1988 og starfaði þar samfleytt til ársins 2001.

Hún segir kirkjuna hafa það hlutverk að feta í fótspor Krists og bjóða fólki að vera samferða á þeirri leið.

„Kirkjan berst fyrir réttlæti, kallar eftir friði, umber ekki ofbeldi eða mismunum, kúgun eða misrétti.

Hún er málsvari umhverfisverndar og náttúrunnar, gefur rödd þeim sem enga rödd eiga, styrk þeim sem upplifa vanmátt, von og ljós í sorg en upplifir gleði þeirra sem fagna og þakklæti.“

Að sögn Irmu skiptir það máli að hlakka til að koma til vinnu sinnar, finna eftirvæntingu og áskorun.

„Nú verður það sóknarprestsstarfið í samstarfi við hóp af hæfileikaríku fólki.

Fólkið sem starfar í kirkjunni hefur mikinn metnað fyrir kirkjunni sinni og kirkjustarfinu og einnig eru margir sjálfboðaliðar sem leggja hönd á plóg með gáfum sínum og krafti.

Hallgrímskirkja er sambland af hefðbundnum söfnuði og hlutverki sem þjóðarhelgidómur.

Það er skemmtileg glíma framundan að láta þetta vinna saman“

segir Irma og bætir við:

„þessi stöðuga áskorun er minn hvati og starf í kirkju á alltaf að vera í þróun, dvelja í núinu en alltaf á leið til framtíðar."

 

 

slg







Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Kirkjustaðir

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls