Tvær ályktanir samþykktar frá Presta- og djáknastefnunni

28. apríl 2023

Tvær ályktanir samþykktar frá Presta- og djáknastefnunni

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir sleit Presta- og djáknastefnu árið 2023 rétt eftir hádegi í dag 28. apríl.

Í lok stefnunnar voru samþykktar tvær ályktanir undir liðnum önnur mál.

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur í Grafarvogsprestakalli og sr. Arna Grétarsdóttir sóknarprestur í Reynivallaprestakalli báru fram eftirfarandi ályktun:

Presta- og djáknastefna sem haldin er í Grensáskirkju dagana 26.-28. apríl árið 2023 skorar á ríksstjórn Íslands, Landlæknisembættið og öll þau sem fara með ákvörðunarvald innan heilbrigðisþjónustunnar að róa að því öllum árum að færa þjónustu við þau sem þjást af fíknisjúkdómi til betra horfs.

Það verður aðeins gert með því að auka fræðslu, vinna gegn fordómum og forgangsraða fjármunum til málaflokksins.

Stöðugar fréttir berast af dauðsföllum af völdum ópíóða og svo er komið að rætt er um ópíóðafaraldur.

Allt of margt fólk lætur lífið vegna fíknisjúkdóms, langt fyrir aldur fram.

Prestar og djáknar hafa ekki farið varhluta af því að þjónusta þau sem sjúkdómurinn hrjáir og aðstandendur þeirra í sjúkdómsferlinu og þegar dauðinn kveður dyra.

Presta- og djáknastefnan styður því við skaðaminnkandi og lífgefandi meðferðarúrræði, sem byggjast á kristnum gildum um virði og reisn hverrar manneskju.

Sr. Magnús Magnússon sóknarprestur í Húnavatnsprestakalli, sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir sóknarprestur í Laugardalsprestakalli og sr. Sigríður Gunnarsdóttir sóknarprestur í Skagafjarðarprestakalli lögðu fram eftirfarandi ályktun:

Presta- og djáknastefnan árið 2023 hvetur biskup Íslands til að boðað verði til presta- og djáknastefnu árlega, þriðja hvert ár úti á landi.

Ennfremur að fundir biskups með prestum og djáknum á prófastsdæmisvísu þriðja hvert ár verði til viðbótar, en komi ekki í stað presta- og djáknastefnu á landsvísu.

Með þessu fylgdi eftirfarandi greinargerð:

Mikilvægt er að öll stéttin hittist árlega og uppörvist af því gefandi samfélagi sem samfundir kollega eru.

Stéttin er mjög dreifð um landið og því afar mikilvægt, til þess að efla liðsheild, samhjálp og samstöðu, að stéttin öll hittist eigi sjaldnar en árlega.

Báðar þessar ályktanir voru samþykktar með lófaklappi.

 

slg


  • Biskup

  • Forvarnir

  • Fræðsla

  • Kærleiksþjónusta

  • Presta- og djáknastefna

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Þjóðkirkjan

  • Ályktun

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls