Ný stjórn Prestafélags Austurlands
Aðalfundur Prestafélags Austurlands sem haldinn var 2. maí s.l. kaus nýja stjórn félagsins.
Stjórnin skipti með sér verkum og er nýr formaður sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur í Egilsstaðaprestakalli, gjaldkeri er sr. Benjamín Hrafn Böðvarsson, og ritari er sr. Bryndís Böðvarsdóttir, sem bæði eru prestar í Austfjarðaprestakalli.
Starfssvæði Prestafélags Austurlands er Austurlandsprófastsdæmi, sem telur þrjú prestaköll, Egilsstaðaprestakall, Hofsprestakall í Vopnafirði og Austfjarðaprestakall.
Þar starfa átta prestar, einn djákni og einn fræðslufulltrúi.
Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, formaður félagsins segir að fyrstu verkefni nýrrar stjórnar séu að vinna að breytingum laga félagsins, en gildandi lög séu frá árinu 1940.
„Eftir því sem við komumst næst, eru ennþá gildandi lög félagsins, þau sem samþykkt voru árið 1940 og það liggur í augum uppi að starfsumhverfi okkar hefur breyst stórum á þeim tíma sem síðan er liðinn“
segir sr. Kristín Þórunn.
„Unnið var að lagabreytingum og tillögur lagðar fram upp úr síðustu aldamótum, en þær breytingar náðu aldrei fram að ganga.“
Helstu breytingar sem núverandi stjórn vill ná fram í lögum félagsins, og byggja á umræðum á síðasta aðalfundi, varðar stöðu félaga sem tilheyra öðrum stéttarfélögum en Prestafélagi Íslands en vilja samt vera hluti af faglegu og félagslegu samfélagi kirkjunnar þjóna í Austurlandsprófastsdæmi.
„Prestafélag Austurlands vill vera vettvangur kirkjunnar þjóna á svæðinu fyrir kirkjuleg og guðfræðileg mál í samtímanum, sem fyrst og fremst eru til blessunar fyrir starf safnaða þjóðkirkjunnar“
segir sr. Kristín Þórunn.
„Okkur finnst mikilvægt að breytt landslag í starfi þjóðkirkjunnar og stéttafélagsmálum starfsfólks hennar sé endurspeglað í lögum félagsins okkar sem okkur finnst svo vænt um“
segir sr. Kristín Þórunn að lokum og bætir við að það sé mikill hugur í nýju stjórninni!
slg