Útskrift úr Leiðtogaskóla Þjóðkirkjunnar
Sunnudaginn 21. maí var útskrift úr Leiðtogaskóla Þjóðkirkjunnar í Grensáskirkju.
Frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands afhenti þeim Karólínu Karlsdóttur og Iðunni Helgu Zimsen útskriftarskjal úr Leiðtogaskólanum.
Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir þjónaði fyrir altari .
Að sögn Önnu Elísabetar Gestsdóttur djákna og svæðisstjóra æskulýðsmála Kjalarness- og Reykjavíkurprófastdæma eystra og vestra var
„þetta yndisleg stund með fjölskyldum, vinum, messuþjónum, kirkjukór og kirkjustarfsfólki til staðar.
Ein móðirin sagði orðrétt:
"Takk fyrir að hjálpa okkur við uppeldi dóttur okkar!"
sem er að mínu mati magnað að heyra því það þarf nefnilega heilt þorp til að ala upp barn og Þjóðkirkjan er hluti af þorpinu.“
Leiðtogaefnin, þær Karólína og Iðunn Helga, sem kláruðu að þessu sinni voru bæði glaðar og þakklátar og fannst fræðslan hafa stutt þær í því að geta tekið á móti börnum, sem eru hluti af barna og æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar.
Í guðþjónustunni var samtalspredikun þar sem leiðtogaefnin voru búnar að undirbúa sig með spurningar um það hvernig þær sjá fyrir sér að vinna í barna- og æskulýðsstarfinu.
Það kom fram að mikilvægt sé að syngja saman, vera með uppbyggjandi leiki, setja dæmisögur Jesú í leikrænt form og koma fram við börnin af virðingu og hlýju þannig að öllum líði vel í kirkjunni.
Systir Iðunnar Helgu, Gréta Pétrína söng með henni í guðsþjónustunni, en til gamans má geta þess að iðunn Helga var að útskrifast úr leiðtogaþjálfuninni og Gréta Petrína er í leiðtogaþjálfun.
Þetta var mjög fallegur söngur án undirleiks að sögn Önnu Elísabetar.
Leiðtogaefnin fengu útskriftarskjal í ramma þar sem fræðslan var dregin saman í orð og myndir.
Þær fengu bókina um Jesú að gjöf þar sem þær hafa möguleika á því að fræðast um Jesú, umhverfi og menningu þess tíma þegar hann ferðaðist um landið og kenndi guðfræði.
Síðan fengu þær fjársjóðsöskju til að geta ræktað trúna inn í hið daglega líf og einnig Verndum bernskuna á segli, sem verið var að útdeila á Djákna- og prestastefnunni.
Eftir guðþjónustuna var messukaffi og fólk gaf sér góðan tíma til að spjalla og gæða sér á góðum veitingum.
Að lokum sagði Anna Elísabet:
„Það voru mörg brosandi andlit í Grensáskirkju á sunnudaginn.“
slg