Leiðbeiningar um kosningu til vígslubiskups í Skálholti
Kosning til vígslubiskups í Skálholti fer fram frá kl. 12.00 á hádegi þann 7. júní og lýkur kl. 12.00 á hádegi þann 12. júní 2023.
Í kjöri eru sr. Arna Grétarsdóttir sóknarprestur á Reynivöllum í Kjós, sr. Dagur Fannar Magnússon sóknarprestur í Skálholti og sr. Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti.
Kosningin er rafræn á kirkjan.is
Leiðbeiningar um hvernig á að kjósa má finna hér.
Til að ganga úr skugga um hvort fólk er á kjörskrá er farið með rafrænum skilríkjum þar sem stendur kjörskrá.
Þegar viðkomandi hefur skráð sig inn með rafrænum skilríkjum koma leiðbeiningar um hvernig greiða skal atkvæði.
Kosningarétt í vígslubiskupskjörinu hafa þau sömu sem hafa kosningarétt til að kjósa biskup Íslands í Skálholtsumdæmi.
Biskup Íslands og vígslubiskupar hafa kosningarrétt.
Auk þeirra þjónandi prestar eða djáknar íslensku þjóðkirkjunnar eða þau sem starfa hjá íslenskum söfnuði þjóðkirkjunnar erlendis eða á vegum stofnunar eða félagasamtaka hér á landi.
Þjónandi prestur eða djákni hjá íslenskum söfnuði þjóðkirkjunnar erlendis, nýtur kosningarréttar í umdæmi vígslubiskups í Skálholti.
Djákni skal vera ráðinn til a.m.k. eins árs eða ótímabundið til að njóta kosningarréttar.
Prestur eða djákni sem látið hefur af þjónustu nýtur ekki kosningarréttar.
Kosningarrétt eiga vígðir starfsmenn á þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar sem eru í föstu starfi.
Auk presta og djákna hafa leikmenn víðtækan kosningarétt.
Það eru aðal- og varamenn í sóknarnefndum og allt að sjö kjörfulltrúum úr hverju prestakalli valdir af sóknarnefnd eða sóknarnefndum til viðbótar öðrum kjörfulltrúum.
Leikmenn sem eiga sæti á kirkjuþingi hafa auk þess kosningarrétt.
Úrslit í vígslubiskupskjörinu eiga að liggja fyrir innan sólarhrings frá því að atkvæðagreiðslu lýkur þann 12. júní.
slg