Biskup Íslands vísiterar Vestfirði
Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir hóf vísitasíu sína um Vestfirði síðast liðinn sunnudag þann 25. júní.
Vísitasían hófst í Grunnavík, sem fór í eyði árið 1962, en þá lagðist byggð endanlega af í Jökulfjörðum.
Þess má geta að frú Agnes á ættir sínar að rekja til Grunnavíkur.
Vísitasían hófst með messuferð til Grunnavíkur.
Biskup Íslands prédikaði og sr. Magnús Erlingsson sóknarprestur í Ísafjarðarprestakalli og prófastur Vestfjarðarprófastsdæmis þjónaði fyrir altari.
Með í för voru prestar, guðfræðingur og djákni auk annarra kirkjugesta.
Sr. Dalla Þórðardóttir prófastur í Miklabæ í Skagafirði, Kristín Árnadóttir djákni Borðeyri og Hans Guðberg Alfreðsson prófastur Kjalarnesprófastsdæmis sóttu messuna, en auk þeirra var Agnar Gunnarsson guðfræðingur á Miklabæ, en hann er borinn og barnfæddur Bolvíkingur.
Agnar var meðhjálpari í messunni.
Ritningarlestra lásu Ólafur Guðsteinsson og Einar. K. Guðfinnsson.
Organisti var Judy Tobin.
Fjölmenni var í messunni og var Smári Haraldsson á Ísafirði með leiðsögn um staðinn fyrir messuna, en hann ólst upp í Grunnavík sem barn.
Að lokinni messu nutu kirkjugestir glæsilegra veitinga hjá Sigurrós Sigurðardóttur í Sútarabúðum og Kristínu Árnadóttur djákna.
Biskup heldur vísitasíunni áfram í ágúst, en Vestfjarðarprófastsdæmi er síðasta prófastsdæmið sem hún vísiterar í biskupstíð sinni.
Vísitasíunni lýkur þegar hún vísiterar Bolungarvík, á sjómannadaginn á næsta ári, en hún þjónaði Bolvíkingum sem sóknarprestur frá árinu 1994 til ársins 2012 þegar hún var kjörinn biskup Íslands og prófastur Ísfjarðarprófastsdæmis var hún frá 1999 til 2012.
slg