Vegleg og vönduð afmælishátíð

24. júlí 2023

Vegleg og vönduð afmælishátíð

Afar vandaðri afmælishátíð lauk í Skálholti í gær.

Framúrskarandi erindi á málþingum og stórbrotin tónlist einkenndi hátíðina alla helgina.

Dr. Antje Jackelén hélt um klukkutíma erindi um gervigreind og trú og yfir klukkutíma umræður sköpuðust á eftir.

Í erindi hennar kom fram að gervigreind er nú þegar orðin stærri þáttur í lífi okkar en við gerum okkur grein fyrir og því þurfum við að spyrja okkur spurninga á borð við hver stjórni þessu, hvað það geri fyrir okkur og hvernig það hjálpar börnum svo eitthvað sé nefnt.

Hún lagði áherslu á að siðfræðilegar spurningar þurfi að vera með alveg frá upphafi og kirkjan þarf að vera með í þeirri umræðu.

Eftir hádegið var málþing um Skálholt of tyrkjaránið.

Var það tilkomið vegna þess að út var að koma bókin Turbulent times eftir Adam Nicols og Karl Smára Hreinsson.

Í fróðlegu erindi sem Adam Nichols hélt sagði hann frá rannsóknum þeirra félaga á heimildum sem finna má í bréfasafni Skálholtsbiskupa.

Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur sem skrifaði bókina Reisubók Guðríðar Símonardóttur greindi frá bréfi sem Guðríður ritaði þegar hún var ambátt í Alsír til Eyjólfs manns síns og hvaða afleiðingar það hafði fyrir hann að bréfið komst í hendur Skálholtsbiskups.

Eftir síðara málþingið voru afar vandaðir tónleikar þar sem Kirkjukórar Breiðabólsstaðarprestakalls, Kirkjukórar Odda- og Þykkvabæjarkirkju, Kirkjukór Landeyja og Skálholtskórinn ásamt hljómsveit sungu undir stjórn staðarorganistans Jóns Bjarnasonar.

Húsfyllir var á tónleikunum enda hafði undirbúningur verið mikill hjá afar stórum hópi kirkjukórafólks af öllu Suðurlandi.

Á tónleikunum flutti Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra áhugvert ávarp sem lesa má í heild sinni hér 

Sunnudagurinn rann upp með hlýjum andvara og gosmóðu yfir öllu Suðurlandi.

Hátíðargestir létu það ekki á sig fá því fólk streymdi hvaðanæva að.

Dagskráin hófst með orgeltónleikum Jóns Bjarnasonar, en þar voru leikin þekkt orgelverk eftir J.S. Bach.

Hátíðamessa var eftir hádegið þar sem vígslubiskupinn í Skálholti sr. Kristján Björnsson prédikaði og prestar úr stiftinu þjónuðu fyrir altari.

Í messunni var hátíðlegur tónlistarflutningur og allt þetta lá á herðum organistans sem á heiður skilið fyrir alla þá vinnu sem lá að baki því að gera afmælishátíðina svo veglega.

Eftir afmæliskaffi sem fólk drakk bæði utan- og innandyra var hátíðarsamkoma í hinni 60 ára gömlu kirkju.

Dr. Antje Jackelén fyrrum erkibiskup Svía flutti þar ávarp og ræddi um tengsl kirknanna á Norðurlöndum og flutti kveðjur frá sænsku kirkjunni og Lútherska heimssambandinu, en þar er hún í embætti varaforseta.

Þorsteinn Pálsson fyrrum forsætisráðherra og núverandi fomaður stjórnar Skálholts hélt eftirminnilega ræðu og minntist þess að hafa verið barn að aldri í Skálholti þegar hornsteinn kirkjunnar var lagður sumarið 1956.

Ræddi hann um það hve mikilvægt það var að ákveðið var að reisa veglega kirkju í Skálholti í stað þess að reisa þar minnisvarða um forna sögu.

Minntist hann í því sambandi á það hve ötull dr. Sigurbjörn Einarsson fyrrum biskup Íslands hefði staðið í þeirri baráttu.

Sigríður Hagalín Björnsdóttir rithöfundur hélt einnig eftirminnilegt erindi og fékk áheyrendur til að fara með sér 590 ár aftur í tímann og minntist atburða sem gerðust í Skálholti á Þorláksmessu á sumri árið 1433.

Um þssa atburði hefur hún skrifað í bók sinni Hamingja þessa heims.

Var áhugavert að hlusta á hvernig hún fléttaði saman í sögu og samtíð eðli manneskjunnar sem í raun og veru er það sama hvort sem við lifum á 15. öld eða þeirri 21. þó allar ytri aðstæður séu ef til vill breyttar.

Að lokum flutti Pétur Ármannsson erindi um kirkjubygginguna og þær endurbætur sem nýlega hafa verið gerðar á kirkjunni í tilefni af 60 ára afmælinu.

Á þessari samkomu var það enn Jón Bjarnason sem sá um að skreyta dagskrána með fallegum kórsöng Skálholtskórsins.



slg



Myndir með frétt

  • Guðfræði

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Lútherska heimssambandið

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Ráðstefna

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Vígslubiskup

  • Fræðsla

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls