Stórtenór í kvöldmessu í Bústaðakirkju
Kvöldmessur eru hvern sunnudag í Bústaðakirkju í sumar klukkan 20. Í kvöldmessunum er andrúmsloftið heimilislegt en heilagt, takturinn er aðeins annar en í hefðbundnu helgihaldi. Um er að ræða ljúfar stundir með einsöng og almennum söng, hugleiðingu, bænagjörð og öllu því sem hefðbundnar guðsþjónustur skarta, en aðeins á lágstemmdari nótum.
Jóhann Friðgeir Valdimarsson, tenór, mun annast um tónlistina í kvöldmessunni í Bústaðakirkju næsta sunnudag 30. júlí kl. 20. Hann mun syngja einsöng við undirleik Jónasar Þóris kantórs kirkjunnar sem stýrir tónlistinni, en Jóhann Friðgeir hefur fengist við mörg af helstu stórverkum óperuheimsins. Tónlistin verður fjölbreytt, íslensk lög og ítölsk, einnig My way og fleira. Jóhann Friðgeir mun jafnframt leiða almennan safnaðarsöng, þar sem sálmar verða á dagskránni.
Þess má geta að Jóhann Friðgeir mun frumflytja nýjan sálm eftir Jónas Þóri, við texta Hjördísar Kristinsdóttur.
Séra Þorvaldur Víðisson, sóknarprestur, annast um þjónustuna ásamt messuþjónum.
Textar dagsins hvetja til trúmennsku og auðmýktar. Textarnir og orðin tala fyrir rétti hinna fátæku og umkomulausu. Hvort sem það er spámaðurinn Jesaja, Pétur postuli eða Jesús sjálfur, þá fjalla þeir allir um réttlæti og hvetja áheyrendur sína til að sína trúmennsku.
Það réttlæti og sú trúmennska grundvallast á þeirri sannfæringu að Guð sé til, og ekki nóg með það heldur að Guð sé sá kærleikans kraftur sem lifir í öllu og vakir yfir öllu, og elskar alla menn, og þar með þig og mig. Það er einn af rauðu þráðum Biblíunnar.
Hin þekkta líking Jesú í guðspjallatexta dagsins um mennina tvo sem byggðu hús sín annars vegar á bjargi og hinn sem byggði hús sitt á sandi, hefur fylgt menningu okkar í tvö þúsund ár.
Öll hjartanlega velkomin!
Kvöldmessan í Bústaðakirkju er eina messa sunnudagsins í Fossvogsprestakalli, þar sem árleg sumarlokun er í gangi í Grensáskirkju, en hún stendur fram yfir Verslunarmannahelgi.