Sálmabandið á menningarnótt
Sálmabandið mun leika á hljóðfæri sín í Dómkirkjunni í Reykjavík frá kl. 16:00-18:00 laugardaginn 19. ágúst.
Þá munu þau einnig leika undir almennan sálmasöng.
Eins og oft hefur komið fram á kirkjan.is var ný sálmabók tekin í notkun í kirkjunni í nóvember s.l. og er hún mikill happafengur.
Það má m.a. finna á því að nú eru bókstafshljómar við alla sálmana og eykur það möguleika á flutningi sálmanna.
Fjöldamargir nýir sálmar eru í bókinni, m.a. eftir Sigurð Flosason, Aðalstein Ásberg, Bubba Morthens, Báru Grímsdóttur, Sigurð Sævarsson, svo aðeins fáir séu nefndir, auk fjölda þjóðlaga frá mörgum löndum.
Verður leitast við að leika nýja sálma í bland við gamla kunningja, auk þess sem hugsanlega getur bandið tekið við beiðni úr sal varðandi sálma.
Sálmabandið skipa:
Ása Briem, sem leikur á harmonikku og Jón Ívars og Sigmundur Sigurðarson sem leika á gítara.
Sr. Sveinn Valgeirsson sóknarprestur í Dómkirkjunni í Reykjavík leikur á kontrabassa og Telma Rós Sigfúsdóttir á víólu.
Sálmabandið hefur undanfarin ár gjarnan hist á 12Tónum og leikið undir almennum sálmasöng.
Hefur það mælst ágætlega fyrir og vonast því bandið til að sjá sem flesta á menningarnótt.
slg