Líflegar fermingarbúðir í Vatnaskógi

31. ágúst 2023

Líflegar fermingarbúðir í Vatnaskógi

Smiðjumessa í Vatnaskógi

Eins og fram hefur komið á kirkjan.is þá eru fermingarstörf kirkjunnar að hefjast um allt land.

Víða hefjast þau með fermingarbarnamótum eða námskeiðum.

Löng hefð er fyrir fermingarnámskeiðum í sumarbúðum KFUM og K í Vatnaskógi.

Nú eru fermingarnámskeiðin komin á fullt.

Þau fara þannig fram að prestar koma með fermingarbörn sín víða að af landinu, frá Ólafsfirði í norðri, af Vesturlandi, frá Vestfjörðum, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, allt austan frá Skaftafellssýslu.

Að sögn sr. Sigurðar Grétars Sigurðssonar sóknarprests í Útskálum, sem heldur utan um þessi námskeið þá:

„koma flestir hóparnir á tveggja daga námskeið þar sem gist er eina nótt.

Hins vegar hefur þeim prestum fjölgað sem velja að gista tvær nætur með fermingarbörn sín þannig að það náist alla vega einn heill dagur sem hvorki er brottfarardagur né heimferðardagur.

Einstaka hópar koma á dagsnámskeið.

Svo eru hátt í tuttugu prestar sem koma á fimm daga námskeið sem fram fara í lok ágúst og byrjun september.“

Þegar fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Sigurð Grétar í upphafi vikunnar var einmitt eitt slíkt námskeið í gangi hjá Útskála- og Grindavíkurprestaköllum.

Og hann heldur áfram:

„Í síðustu viku voru svo börn ásamt prestum frá Norðurlandi vestra og Tröllaskaga.

Svona langt námskeið skapar vissulega enn meiri möguleika til upplifunar og fræðslu og hefur þetta hentað einkar vel þegar börn koma langt að, búa jafnvel dreift þannig að erfitt getur reynst að ná þeim oft saman heima í söfnuði.

Á þessum fimm daga námskeiðum fléttast saman fræðsla, frjáls tími og helgihald.

Einnig gefst svigrúm til að fá heimsókn frá Hjálparstarfi kirkjunnar til að kynna fermingarbarnasöfnunina og eins heimsókn frá Kristniboðssambandinu þar sem þau fá fræðslu um kristniboð Íslendinga á framandi slóðum.

Þrjár guðsþjónustur fara fram með ólíku sniði, léttmessa með hressilegum söngvum, smiðjumessa með þátttöku allra í lestrum, leikþáttum, altaristöflugerð, bænagjörð, söng og fleira.

Að lokum er ljósamessa þar sem safnast er saman við ljósakross og sungnir rólegir söngvar auk Guðs orðs og hugvekju.

Ákveðnar fræðslustundir eru í smáum hópum ýmist sem hringekja eða að hver prestur er með sinn hóp og tekur svo upp þráðinn heima í söfnuði að námskeiði loknu.

Prestar sem tekið hafa þátt í þessum löngu námskeiðum hafa lagt mikla áherslu á að geta komið aftur og hafa notið skilnings skólasamfélagsins sem er því miður ekki alltaf til að dreifa“ segir sr. Sigurður Grétar og heldur áfram:

„Til er skemmtileg saga af því þegar Siglufjarðarprestakall fluttist frá Skagafjaðarprófastsdæmi yfir í Eyjafjarðarprófastsdæmi.

Siglufjörður hafði komið í mörg ár á fimm daga námskeið með Skagfirðingum en nú varð breyting á.

Eftir þrjú ár án þessa námskeiðs sagði skólastjórinn við prestinn eitthvað á þessa leið:

"Getur þú ekki farið að fara aftur með fermingarbörnin á þessi fimm daga fermingarnámskeið?

Þau lifðu á þessu allan veturinn“.

Oft getur verið von á fallegum síðsumarsdögum og hafa fyrstu tveir hóparnir verið heppnir með veður.

Bátar, skógur, baðströnd og fleira vekur kæti og gleði.

Kannanir hafa oft sýnt að fermingarferðalagið, óháð hversu langt það er, er eitt af því sem stendur uppúr minningunni um góðan fermingarvetur með prestunum sínum og fræðurum.

Við biðjum Guð að blessa fermingarstarf vetrarins heima í söfnuði og eins í fermingarbúðunum og gefa prestum, djáknum og fræðurum gleði og farsæld í þjónustunni“

sagði sr. Sigurður Grétar að lokum.

Myndirnar hér fyrir neðan segja meira en nokkur orð um upplifun barnanna.

 

slg



Myndir með frétt

  • Ferming

  • Fræðsla

  • Hjálparstarf

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Námskeið

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Æskulýðsmál

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls