Dagur kærleiksþjónustunnar í kirkjunni

2. september 2023

Dagur kærleiksþjónustunnar í kirkjunni

Dagur kærleiksþjónustunnar er á morgun, 3. september 2023.

Kærleiksþjónusta kirkjunnar er óaðskiljanlegur hluti af öllu kirkjustarfi, en fer afar hljótt eðli málsins samkvæmt.

Kærleiksþjónustunnar er minnst víða í kirkjum landsins á morgun.

Hér í borg er Skjólið eins skærasta birtingarmynd kærleiksþjónustu kirkjunnar og því spurði fréttaritari kirkjan.is Rósu Björgu Brynjarsdóttur um starfsemina og birtist viðtalið hér fyrir neðan.

Fréttaritari innti einnig Magneu Sverrisdóttur, djákna um kærleiksþjónustuna í kirkjunni okkar.

Hún sagði:

„Birtingarmyndir kærleiksþjónustu kirkjunnar eru næstum því óendanlegar, því að hver og ein manneskja er einstök og aðstæður í tíma og rúmi eru aldrei eins.

Hlutverk okkar er að mæta náunga okkar með virðingu og hlýju í kirkjunni sem og annars staðar óháð öllu, því allar manneskjur eru sköpun Guðs.“

Hverjir þurfa á kærleikþjónustu að halda?

„Svarið er einfalt, það eru manneskjur, það erum við.

Enginn veit sína ævi fyrr en öll er og við þurfum öll á kærleika að halda.

Þó að kærleiksþjónustan sé jafn fjölbreytt og raun ber vitni er fyrirmynd kærleiksþjónustunnar sú hin sama: Jesús Kristur.

Jesús sagði margar dæmisögur um hvernig við ættum að koma fram við náungann, til dæmis um miskunnsama Samverjann, hvernig hann kallaði Sakkeus niður úr trénu, hvernig hann ávítaði fólkið þegar það hindraði börnin sem vildu koma til hans.

Við þekkjum öll þessar sögur og getum sagt þær afturábak og áfram.

En stóra spurningin er, hvernig birtist kærleiksþjónustan í okkar eigin lífi?

Okkur er gert að vera ekki bara þöglir þjónar kærleikans heldur líka talsmenn þeirra sem þurfa á því að halda.

Talsmannshlutverk kærleikans er stundum misskilið, sérstaklega núna á tímum samfélagsmiðla.

Það er ekki okkar hlutverk að segja frá hvað við höfum gert mikið fyrir náungann og hvað þessi og hinn sé nú þakklátur fyrir okkar verk.

Það er okkar hlutverk að vera til staðar fyrir fólk á þeirra forsendum og að aðstoð okkar sé valdeflandi fyrir viðkomandi en ekki bara okkur til dýrðar.

Það er okkar hlutverk að tala máli þeirra sem minna mega sín í samfélaginu án þess að okkar sjálfsmynd eða okkar verk séu að flækjast þar fyrir.

Beinum athygli samfélagsins að stöðu þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu í dag.“

Að lokum segir Magnea:

„Megi góður Guð gefa okkur öllum kjark til þess að draga gluggatjöldin frá og hleypa birtu ljóssins og kærleikans inn í kirkjur landsins og inn í hjarta okkar og náungans eins og segir í fjallræðunni:

Þér eruð ljós heimsins.

Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist.

Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu.

Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“

 

Rós Björg Brynjarsdóttir fer fyrir Skjólinu og hún fékk spurninguna:

Getur þú sagt mér í hverju starf ykkar er fólgið?

„Skjólið er opið frá kl. 10:00 – 15:00 alla virka daga fyrir konur sem eru heimilislausar, eru nýkomnar í búsetu eftir heimilisleysi eða búa við ótryggar aðstæður.

Í Skjólinu starfa auk mín, Hrönn og Una.

Okkar starf er fólgið í samfylgd með konunum.

Við mætum þeim þar sem þær eru staddar hverju sinni, erum tilbúnar að aðstoða þær á allan þann hátt sem okkur er fært á þeirra forsendum.

Hægt og sígandi erum við að auka tengslanetið okkar og lækka þröskulda fyrir okkar konur til að nálgast þjónustu í félagslega- og heilbrigðiskerfinu en margar hverjar hafa ekki þolinmæði, getu eða seiglu til að nálgast þjónustu fyrir utan að þær mæta oft fordómum og eru litnar hornauga þegar þær mæta á staðinn.

Við látum þær vita að við getum aðstoðað þær og gerum það á þeirra forsendum.

Auk þess geta konurnar sinnt líkamlegum grunnþörfum sínum fyrir hreinlæti, hvíld og næringu hér í Skjólinu.“

Hvað koma margar konur að meðaltali?

Á síðasta starfsári 1. júlí 2022 – 30. júní 2023 kom 71 kona á aldrinum 18 – 71 árs í 1916 heimsóknir, þar af var 31 kona að koma í fyrsta skipti.

Að meðaltali komu átta konur í heimsókn á hverjum degi.“

Hvað gerið þið saman?

„Við erum fyrst og fremst í samfylgd og samveru.

Hér er spjallað um allt milli himins og jarðar, merkilega og ómerkilega hluti.

Konurnar stjórna samtalinu sem að einhverju leyti snýst um þau áföll sem þær hafa gengið í gegnum en yfirleitt um eitthvað allt annað.“

Hvernig tengist Skjólið kirkjunni?

„Fyrir tilstilli Agnesar biskups opnaði Skjólið formlega 25. febrúar 2021 í kjallara Grensáskirkju, rekið af Hjálparstarfi kirkjunnar með fjármagni frá kirkjunni.“

Hversu mikilvægt er það að kirkjan sé með þessa starfsemi?

„Skjólið er birtingarmynd kærleiksþjónustu kirkjunnar, hér er samfélag og stuðningur sem dregur úr einsemd.

Konurnar upplifa traust, frið og ró, skjól til að nærast líkamlega og andlega og tímabundið minni þjáningu.

Svo ég vísi í orð okkar kvenna að þá er Skjólið staður þar sem þær geta viðhaldið sjálfsvirðingu sinni, fundið til öryggis, upplifað sig sem manneskju með hæfileika og getu til margra hluta.“

Er einhver annar aðili á höfuðborgarsvæðinu með svipaða eða sams konar starfsemi?

„Fólk getur fengið mat og ýmislegt á kaffistofu Samhjálpar eða í Hjálpræðishernum, en enn sem komið er er ekkert annað úrræði sem býður upp sambærilega starfsemi og Skjólið býður upp á fyrir konur sem eru að glíma við heimilisleysi.

Ein af okkar konum orti eftirfarandi ljóð:

Skjólið

Í Skjólið kom ég án vonar & trú

mín ævisaga leiðir nú,

tár & sorgin fylgir nú

með skömm í hjarta heyrir þú.

Ef tímar breytast & ég svo með

gaman væri að koma hér

með þökk í hjarta, í hjarta er

Skjólið ávallt fylgir mér.“

 

slg


  • Forvarnir

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Biskup

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi