Er einhver von í heiminum í dag?

18. september 2023

Er einhver von í heiminum í dag?

Dr. Sinaca, dr. Ayele og dr. Jacklén

Yfirskrift og efni 13. Heimsþings Lútherska Heimssambandsins sem haldið er í Kraków í Póllandi 13.-19. september er Einn líkami, einn andi, ein von.

Fyrirlesarar sem taka fyrir þetta efni koma frá ólíkum heimshornum.

Dr. Benny Sinaga forseti guðfræðiskóla fyrir konur í Norður Súmötru talaði um einn líkama, dr. Bruk Ayele prófessor við Mekane Yesus guðfræðiskólann í Eþíópíu talaði um einn anda og Antje Jacklén fyrrum erkibiskup Svía talaði um eina von.

Dr. Benny Sinaga hóf erindi sitt á að lesa úr Efesusbréfi Páls postula 4:4-6:

„Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur.

Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.“

„Við þekkjum líkama okkar“ sagði hún „við notum hann til að vinna, ganga, biðja, eyðileggja og skemma.

Svo þurfum við eitthvað til að halda á okkur hita.

Næring er einnig nauðsynleg fyrir líkamann.“

Svo vitnaði hún í fyrra Korintubréfið 6:19 þar sem segir:

„Vitið þið ekki að líkami ykkar er musteri heilags anda sem í ykkur er og þið hafið frá Guði?“ og bætti við:

„Líkami Krists er brotinn!

Líkami Krists grætur og þjáist á krossinum.

Kóvid lét fólk gráta, kirkjur grétu.

Við töluðum við Guð í þögninni, í einangruninni.

Alls staðar þjáðist fólk.

Í dag grátum við yfir Úkraínu og Úkraína grætur.

Allur líkaminn þjáist ef einhver þjáist.“

Þar sem dr. Benny Sinaga býr á Súmötru vill fólk hafa ljósari húð og hlustar frekar á fólk með ljósa húð og hún bætir við:

„Við erum hér saman komin frá 99 löndum og við þörfnumst öll snertingar og viðurkenningar.

Sumir eru hræddir við að tala við náungann.

Við erum samt einn líkami í Lútherska Heimssambandinu og réttlæti og jafnrétti hefur einkennt sambandið um árabil, samt er ekkert réttlæti og ekkert jafnrétti.“

Guðfræðiskólinn sem hún leiðir hjálpar stúlkum og konum til mennta.

2000 konur hafa verið vígðar til prests- og djáknaþjónustu í heimalandi hennar og nú hafa konur loksins verið vígðar hér í Póllandi.

„Það er sannarlega verk heilags anda“ segir hún og vitnar í Galatabréfið 3:28 þar sem segir:

„hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona.

Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“

Samt sem áður eru kirkjur innan sambandsins sem vígja ekki konur og hún spurði með ákallandi röddu:

„Hvenær?!!!“

Og hún hélt áfram:

„Þjáning Krists á krossinum er ekki aðeins hans þjáning.

Allir sem þjást geta samsamað sig við þjáningu Krists.

Kristur er höfuð líkamans, sem er kirkjan.

Við erum öll börn Guðs.“

Dr. Bruk Ayele Asale forseti Mekane Yesus guðfræðiskólans í Eþíópíu talaði um einn anda.

Hóf hann mál sitt á því að spyrja:

„Hvað þýðir einn andi í hinum mismunandi aðstæðum kirkna okkar?

Hvað er eining andans?

Skoðum heiminn eins og hann er“ sagði hann.

„Í gær (föstudag) urðum við vitni að hræðilegum grimmdarverkum nasista í Auschwitz og Birkenau.

Við munum öll eftir aðskilnaðarstefnunni í Suður- Afríku og þjóðarmorðunum í Rwanda og nú geisar stríð í Úkraínu.

Borgarastríð eru háð víða í Afríku, meðal annars í heimalandi mínu Eþíópíu og Súdan.

Fólk er á flótta frá Afríku, Asíu og Suður-Ameríku til Evrópu því það geisar stríð milli bræðra og systra.

En þetta er ekkert nýtt.

Í Biblíunni þekkjum við frásagnir af átökum bræðra til dæmis milli Jakobs og Esaú og Ísrael og Júda.

Kirkjur starfa ekki í einum anda.“

Og hann heldur áfram á frekar jákvæðari nótum.

„Einn andi er mikilvægur.

Við þurfum að heyra það í Afríku og um allan heim.

Jesús bað fyrir einingu.

Lúther lagði líka áherslu á þetta.

Ef við höfum einn anda, þá er möguleiki á árangri, árangri í að skilja hvert annað.

Við þurfum að vera opin og einlæg hvert við annað.

Náðin er boðuð í kirkjunni alls staðar og sameiginlegt markmið okkar allra er fyrirgefning Jesú Krists.

Einn andi er líka í játningum okkar.

Einn andi er það sem kirkjan þráir.“

Og hann spyr sig:

„Er það ómögulegt?

Guð er Guð kraftaverka.

Við verðum að trúa því að við getum orðið eitt.

Sumt kristið fólk segir að eining kristins fólks sé ómöguleg, en kristin trú er trú hins ómögulega.

Hún byggir á kraftaverkum og upprisu.

Við verðum að vera opin fyrir verki heilags anda.“

Og að lokum sagði hann:

„Látum það vera daglega bæn okkar að við getum opnað hjörtu okkar fyrir heilögum anda.

Við erum sterk þegar við erum í einum anda.

Þegar við förum héðan til okkar heima, þá verðum við aðskilin í fjarlægð, en eitt í andanum.

Þannig náum við einingu.

Megi andi Guðs leiða okkur til einingar og friðar.“

Dr. Antje Jacklén fyrrum erkibiskup Svía talaði um eina von.

Hún hóf mál sitt á því að vitna í Gretu Thunberg sem sagði:

„I don´t want you to have hope, I want you to panic!“

„ Ég vil ekki að þið hafið von, ég vil að þið örvæntið!“

„Skilaboð hennar voru að koma í veg fyrir falska von.

Lærisveinar Jesú örvæntu þegar hann hafði verið krossfestur og þeir lokuðu sig inni þar til Jesús birtist þeim upprisinn.

Lærisveinar Jesú mega ekki gefast upp.

Staða heimsins í dag er þannig að við stöndum frammi fyrir mörgum vandamálum, loftlagsvanda, flóttamannavanda, vanda sem skapast af gervigreind og svo framvegis.

Við stöndum einnig frammi fyrir auknum andlegum og geðrænum vanda sem að einhverju leyti stafar af vonleysi.

Vonleysi skapar ótta og ótti skapar hættu.“

Og hún hélt áfram:

„Bjartsýni og svartsýni geta hvort um sig verið slæm fyrir okkur.

Það er hægt að misnota hvort tveggja, bæði í kirkjunni og í stjórnmálum.

Að Guð varð maður í Jesú Kristi sýnir okkur vonina – vonin birtist þar í alvöru.“

Og hún vitnaði í Rómverjabréfið 12:12 þar sem segir: „Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni.“

„Við þurfum að rækta vonina“ sagði hún „við þurfum að anda að okkur heilögum anda til að rækta vonina.

Okkar lútherska trú hefur kennt okkur að allt er gjöf frá Guði.

Vonin er val okkar og gjöf frá Guði eins og segir í fyrra Pétursbréfi 3:15-16: "...helgið Krist sem Drottin í hjörtum ykkar.

Verið ætíð reiðubúin að svara hverjum manni sem krefst raka fyrir voninni sem þið eigið.

En gerið það með hógværð og virðingu og hafið góða samvisku til þess að þau sem níða góða hegðun ykkar sem kristinna manna verði sér til skammar vegna þess sem þeir mæla gegn ykkur.“

Og hún hélt áfram:
„Vonin byggist því að Jesús kom í heiminn, var með okkur, reis upp og er með okkur áfram.

Það er ástæða þess að við höfum von í dag.

Vonin horfir einnig til annarrar víddar tilverunar eins og fram kemur í Hebreabréfinu 11:1:

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá“

og í Rómverjabréfinu 8:24-25 segir:

„Í þessari von erum við hólpin.

Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von.

Hver vonar það sem hann sér?

En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði."

Og í Filippíbréfinu 2:12-13 segir:

„Þess vegna, mín elskuðu, sem ætíð hafið verið hlýðin, vinnið nú að sáluhjálp ykkar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá ykkur, því fremur nú þegar ég er fjarri.

Því að það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar.“

Og hún heldur áfram:

„Von kirkjunnar er umbreyting samfélagsins.

Kirkjan á að vera spámannleg, hún á að vera virk í kærleiksþjónustu, hún á að vera boðberi kristinnar siðfræði og guðfræði.“

Að lokum spurði hún:

„Hvernig getum við haldið í eina von?“

Svar hennar var eitthvað á þessa leið:

„Guð sendi ekki son sinn í heiminn til að bjarga einni kirkju eða einhverju ákveðnu fólki, eða ákveðinni menningu, heldur heiminum.

Jesús stendur í miðjum heiminum og í honum er ein von.

Við þurfum að vera meðvituð um stöðu heimsins.

Við megum ekki láta örvæntingu okkar orsaka ótta og svartsýni.

Við getum ákveðið að vera hugrökk.

Lúther sagði eitt sinn að ef hann vissi að heimurinn myndi farast á morgun myndi hann planta epltré í dag.

Gleymum því aldrei að sem samfélag kirkna erum við kölluð til að planta fræjum vonar hvar sem við erum“

sagði dr. Antje Jacklén að lokum.

 

slg











  • Biblían

  • Biskup

  • Flóttafólk

  • Fræðsla

  • Guðfræði

  • Lútherska heimssambandið

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þing

  • Umhverfismál og kirkja

  • Alþjóðastarf

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls